Redknapp tilbúinn í viðræður

Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, er tilbúinn í viðræður við enska knattspyrnusambandið um að taka að sér starf landsliðsþjálfara Englendinga en hefur beðið um smá frest eftir erfiða og dramatíska viku í lífi hans.

Að því er fram kemur í enska blaðinu Daily Mail ræddu háttsettir menn innan stjórnar enska knattspyrnusambandsins um arftaka Fabios Capellos og er talið víst að Redknapp sé efstur á óskalistanum nú þegar hann hefur verið sýknaður af skattalagabrotum.

„Réttarhöldin reyndust mér ansi erfið og ég held að þegar maður er búinn að fara í gegnum svona lagað þá taki nokkra daga að komast yfir það. En ef mér býðst að taka við enska landsliðinu mun ég íhuga það en það yrði ekki auðvelt að yfirgefa Tottenham. Það yrði mjög erfitt,“ sagði Redknapp við Daily Mail.

„Núna er ég bara að hugsa um leikinn á móti Newcastle, velja rétta liðið og reyna að vinna,“ sagði Redknapp en Tottenham tekur á móti Newcastle seinni partinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert