Capello að taka við Anzhi Makhachkala?

Fabio Capello.
Fabio Capello. Reuters

Fabio Capello, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englendinga, er sagður vera kominn til Rússlands þar sem hann mun ræða við forráðamenn rússneska liðsins Anzhi Makhachkala um að taka við þjálfun liðsins.

Bæði ítalskir og rússneskir fjölmiðlar greina frá því að Capello sé kominn til Rússlands en sem kunnugt er sagði hann starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari Englendinga á miðvikudaginn.

Fregnir herma að Jury Krasnozhan, þjálfari Anzhi Makhachkala, hafi verið látinn taka poka sinn en félagið hefur þó ekki staðfest þær fréttir enn sem komið er. Hann hefur stýrt liðinu frá því í desember á síðasta ári.

Með liði Anzhi Makhachkala leikur Kamerúninn Samuel Eto'o og þá hefur verið sá orðrómur í gangi að forráðamenn þessa ríka félags séu að ræða við Inter Mílanó um kaup á hollenska miðjumanninum Wesley Sneijder en félagaskiptaglugganum í Rússlandi verður lokað síðar í þessu mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert