Stuart Pearce, þjálfari enska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, kveðst vera tilbúinn til að stjórna A-landsliði þjóðar sinnar í úrslitakeppni Evrópumótsins í Póllandi og Úkraínu í sumar.
Pearce stýrir enska liðinu þegar það mætir Hollendingum í vináttulandsleik næsta miðvikudag en knattspyrnusambandið leitar að manni til að taka við af Fabio Capello sem sagði af sér fyrir skömmu.
„Ég er tilbúinn í slaginn og hef reynslu af stórmótum ef þeir vilja fá mig til að sjá um liðið í sumar. Það eru að sjálfsögðu yfirmennirnir hérna sem taka þessa ákvörðun. Þeir vita nákvæmlega hvar þeir hafa mig og vita nákvæmlega hvað ég vil.
Ef þeir vilja að ég stjórni liðinu í sumar, geri ég það af mestu ánægju. Ef þeir þurfa á mér að halda til að hjálpa nýjum þjálfara við að aðlagast, þá geri ég það líka með mestu ánægju.
En ef ég horfi framyfir þennan tíma, lít ég á sjálfan mig sem þjálfara breska Ólympíuliðsins og enska 21-árs landsliðsins," sagði Pearce á fréttamannafundi á Wembley í dag þar sem hann kynnti landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Hollandi.