Landsliðsþjálfari Englands ráðinn í vor

Stuart Pearce hefur umsjón með enska landsliðinu sem stendur.
Stuart Pearce hefur umsjón með enska landsliðinu sem stendur. Reuters

Enska knattspyrnusambandið ætlar ekki að ráða nýjan landsliðsþjálfara fyrr en að loknu keppnistímabilinu í vor, eða eftir 13. maí. Listi yfir væntanlega kandídata liggur þó fyrir.

Alex Horne, framkvæmdastjóri sambandsins, skýrði fréttamönnum frá því í dag að listi yfir áhugaverða þjálfara hefði verið settur saman fljótlega eftir að Fabio Capello sagði starfinu lausu í síðasta mánuði. Hinsvegar yrði engin ákvörðun tekin strax þar sem sambandið vildi ekki trufla starf félaganna á mikilvægum tíma.

„Margir þeirra knattspyrnustjóra sem eru á okkar lista eru í fullu starfi og við viljum ekki skemma tímabilið fyrir neinum. Við flýtum okkur ekki og reiknum með því að ákvörðun liggi fyrir að tímabilinu loknu," sagði Horne.

Stuart Pearce, þjálfari 21-árs landsliðsins, stýrði A-liðinu í fyrrakvöld þegar það tapaði, 2:3, fyrir Hollendingum í vináttulandsleik á Wembley. Í kjölfar þess hafa enskir fjölmiðlar krafist þess að lausn verði fundin á þjálfaramálum liðsins hið snarasta.

Enska landsliðið tekur þátt í úrslitakeppni EM í Póllandi og Úkraínu og mætir þar Frakklandi 11. júní, aðeins 29 dögum eftir að keppni í ensku úrvalsdeildinni lýkur.

„Það er mjög raunhæft. Allur okkar undirbúningur fyrir keppnina er á áætlun. Við verðum tilbúnir með hóp til að fara til Póllands, svo þetta getur vel gengið upp," sagði Horne.

Flestir spá því að Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, verði fenginn til að stýra liðinu í Evrópukeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert