Roy Hodgson, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, er einn þeirra sem koma til greina sem næsti landsliðsþjálfari Englendinga. David Bernstein, formaður enska knattspyrnusambandsins, staðfesti það við götublaðið The Sun í dag.
Bernstein sagði þar að nokkrir kæmu til greina, ekki bara Harry Redknapp, sem langflestir í Englandi virðast vilja fá sem eftirmann Fabios Capellos sem sagði starfinu lausu í síðasta mánuði.
„Við höfum komið okkur saman um nokkur nöfn. Ég myndi segja að það væri sveigjanlegur listi því hann er ekki klappaður í stein og við munum bregðast við eftir því hvernig málin þróast. Næsta mál er að þrengja hringinn niður í þá einstaklinga sem við teljum að hafi virkilegan áhuga á starfinu. Flestir þeirra sem við horfum til eru í starfi, og hvað sem við gerum verðum við að sjá til þess að þeirra félög geti lokið sínu tímabili með minnstu mögulegri truflun,“ sagði Bernstein.
Auk Redknapps og Hodgsons er það helst Stuart Pearce sem þykir koma til greina í starfið en hann stýrði enska liðinu í vináttuleiknum við Hollendinga í síðustu viku.
Hodgson hefur það framyfir hina að hann hefur starfað sem landsliðsþjálfari en hann hefur stýrt landsliðum Sviss og Finnlands með góðum árangri.