Muamba áfram á gjörgæslunni

Owen Coyle knattspyrnustjóri Bolton á leið til sjúkrahússins í dag.
Owen Coyle knattspyrnustjóri Bolton á leið til sjúkrahússins í dag. Reuters

Fabrice Muamba, leikmaður Bolton Wanderers, liggur áfram á gjörgæslu London Chest-sjúkrahússins og verður haldið sofandi þar til morguns í það minnsta, samkvæmt yfirlýsingu sem sjúkrahúsið sendi frá sér í kvöld.

Ástand hans er sem fyrr sagt mjög alvarlegt en í dag var staðfest að eftir samfelldar lífgunartilraunir fór hjarta knattspyrnumannsins að slá á ný á leiðinni frá White Hart Lane, þar sem hann hneig niður í leik Tottenham og Bolton á laugardag, og til sjúkrahússins.

Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton, ræddi við fréttamenn í dag og bað fyrir þakkir og kveðjur, frá félaginu og fjölskyldu leikmannsins, til allra þeirra fjölmörgu sem hefðu sýnt Muamba stuðning undanfarinn sólarhring.

Fabrice Muamba er 23 ára gamall, fæddur í Kongó en flutti 11 ára gamall til Englands og hefur leikið fjölmarga leiki með öllum yngri landsliðum Englands. Þar á meðal 33 leiki fyrir enska 21-árs landsliðið. Samtals hefur Muamba leikið 201 deildaleik með Bolton og Birmingham en hann var áður í fimm ár hjá Arsenal án þess að spila með liðinu í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka