Muamba enn í lífshættu

Fabrice Muamba, leikmaður Bolton, er enn í lífshættu, en hann fékk hjartaáfall í leik gegn Tottenham í gær. Owen Coyle, framkvæmdastjóri Bolton, segir líklegt að það skýrist á næsta sólarhring hvernig Muamba reiðir af.

Muamba hneig niður eftir um 40 mínútna leik á White Hart Lane í gær. Hann var í kjölfarið fluttur á London Chest Hospital, þar sem hann liggur í öndunarvél á gjörgæslu.

Örlög Muamba hafa vakið mikla athygli í knattspyrnuheiminum. Tugir þúsunda manna voru á leikvanginum og sýnt var beint frá leiknum í sjónvarpi. Margir urðu því vitni að því sem gerðist.

Muamba er 23 ára gamall. Hann fæddist í Kinshasa, höfuðborg Kongó, en flutti 11 ára gamall til Englands. Hann var valinn í 21 árs landslið Englands og hefur spilað með Bolton frá 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert