Hættir Bolton í bikarkeppninni?

Leikmenn Bolton fylgjast með lífgunartilraunum á Fabrice Muamba á laugardaginn.
Leikmenn Bolton fylgjast með lífgunartilraunum á Fabrice Muamba á laugardaginn. AP

Forráðamenn Bolton Wanderers íhuga að draga liðið úr ensku bikarkeppninni knattspyrnu í kjölfarið á atvikinu sviplega á sunnudaginn þegar Fabrice Muamba fékk hjartaáfall í leik liðsins við Tottenham í átta liða úrslitum keppninnar.

Enskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um þetta í dag en bæði forráðamenn og leikmenn Bolton hafa látið í ljós að þeir hafi takmarkaðan áhuga á að snúa aftur á White Hart Lane að svo stöddu til að leika bikarleikinn að nýju.

Kevin Davies, fyrirliði Bolton, sagði við BBC í dag að þessar vangaveltur væru ótímabærar í augnablikinu. „Ég hef rætt við stjórann og formanninn og allt snýst um Fabrice og fjölskyldu hans. Hann er gífurlegur íþróttamaður, getur hlaupið endalaust, og vonandi mun hann gera það sama og Bolton hefur svo oft gert, yfirstigið erfiðar hindranir og haldið áfram," sagði DAvies.

Leik Bolton gegn Aston Villa í úrvalsdeildinni annað kvöld hefur þegar verið frestað og Blackburn hefur lýst því yfir varðandi fyrirhugaðan leik liðanna um næstu helgi, muni forráðamenn Bolton ráða ferðinni og þeirra vilji skeri úr um hvort spilað verði eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka