Nemandi við háskólann í Swansea á Englandi, Liam Stacey, var handtekinn vegna kynþáttaníðs í garð Fabrice Muamba, leikmanns enska knattspyrnuliðsins Bolton. Muamba fékk hjartaáfall undir lok fyrri hálfleiks í leik Tottenham og Bolton í ensku bikarkeppninni á laugardaginn og í kjölfarið fluttur á sjúkrahús. Þar er hann nú farinn að sýna einhverjar framfarir en ástand hans er þó mjög alvarlegt. Leikurinn var flautaður af eftir atvikið enda fékk það mikið á leikmenn og áhorfendur á White Hart Lane.
Stacey, sem er 21 árs, skrifaði ummæli sín á samskiptasíðuna Twitter og voru þau í kjölfarið tilkynnt af öðrum notendum sem leiddi til þess að hann var síðar handtekinn. Hann viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa skrifað ummælin en var sleppt gegn tryggingu. Hann kemur hins vegar aftur fyrir dómara 27. mars þar sem hann á yfir höfði sér fangelsisvist.
Stacey var mikið niðri fyrir þegar hann var spurður út í ummælin en reyndi í fyrstu að halda því fram að brotist hefði verið inn á heimasvæði hans á Twitter. Hann sagði síðar við lögregluna: „Ég var á bar þegar ég heyrði hvað hafði komið fyrir Muamba. Ég veit ekki af hverju ég skrifaði þetta. Ég er ekki rasisti og sumir af vinum mínum eru með annan menningarlegan bakgrunn en ég.“