Hávær kvörtun frá José Mourinho, þáverandi knattspyrnustjóra Chelsea, og formleg kvörtun frá félaginu í kjölfarið á sinn þátt í því að læknum tókst að halda lífi í Fabrice Muamba, leikmanni Bolton, þegar hann fékk hjartaáfall í leiknum gegn Tottenham á laugardaginn.
Fyrir rúmum fimm árum, í október 2006, meiddust báðir markverðir Chelsea, þeir Petr Cech og síðan Carlo Cudicini, í leik gegn Reading í úrvalsdeildinni. Cech höfuðkúpubrotnaði en þurfti að bíða lengi eftir að komast á sjúkrahús.
Keir Radnedge, formaður knattspyrnunefndar Alþjóðasamtaka íþróttafréttamanna, AIPS, fjallar um þetta á vef samtakanna og segir frá umræddu atviki og kvörtun.
Hann bendir á að Mourinho hafi sagt á þessari stundu: „Markmaðurinn minn þurfti að bíða í hálftíma í búningsklefanum eftir sjúkrabíl. Þetta er eitthvað sem forráðamenn enska fótboltans verða að endurskoða. Þetta er mikilvægara en fótbolti."
Chelsea sendi síðan formlega kvörtun og í framhaldi af því tóku enska knattspyrnusambandið og úrvalsdeildin upp nýjar aðferðir árið 2007. Þá var félögunum skylt að vera með sjúkrabíl tiltækan á leikjum, sem væri sérstaklega ætlaður fyrir leikmenn og dómara.
Þá var félögum gert skylt að vera með tvo menntaða sjúkraliða sem sæu um sjúkrabörur á leikjum, og með lækni og sjúkraþjálfara á varamannabekkjunum, sem og lækni tiltækan á meðal áhorfenda.
Þetta skilaði sér allt á laugardaginn þegar Muamba fékk bráðaaðstoð eftir að hann hneig niður á White Hart Lane. Fram hefur komið að sex læknar frá báðum liðum hafi gert stanslausar lífgunartilraunir á Muamba í tæpar 10 mínútur áður en hann var borinn af velli með súrefnisgrímu. Innan 15 mínútna var hann farinn á sjúkrahúsið. Síðan var upplýst að það tók tvo klukkutíma að fá hjarta leikmannsins til að slá án hjálpar.
Enn er beðið fregna af því hvernig Muamba reiðir af en svo virðist sem skammirnar frá Mourinho og kvörtunin í kjölfarið hafi haft sitt að segja.