Jákvæðar fregnir tóku að berast frá London Chest-sjúkrahúsinu síðdegis í gær. Þá fóru að glæðast vonir um að knattspyrnumaðurinn Fabrice Muamba myndi lifa af hjartaáfallið sem hann fékk í leik Bolton gegn Tottenham á White Hart Lane á laugardaginn.
Bolton tilkynnti á vef sínum í gærkvöld, í sameiginlegri yfirlýsingu með yfirvöldum sjúkrahússins, að Muamba hefði undir kvöld getað andað án aðstoðar súrefnisgrímu, borið kennsl á fjölskyldumeðlimi og brugðist á réttan hátt við spurningum. Skömmu áður hafði verið tilkynnt að hann væri farinn að geta hreyft hendur og fætur. Hins vegar var tekið fram að hann væri enn á gjörgæslu og ástand hans væri enn metið alvarlegt.
Unnusta hans og barnsmóðir, Shauna Magunda, skrifaði þakkir á Twitter í gærkvöld til allra þeirra sem hefðu sýnt Muamba stuðning og sagði að hver bæn og ósk gæfu honum styrk.
Fjölskylduvinur sem heimsótti Muamba skrifaði á Twitter að hann hefði ávarpað sig með nafni og því væri vart hægt að lýsa með orðum.
Barátta þessa 23 ára gamla miðjumanns fyrir lífi sínu hefur skyggt á flest annað í Englandi undanfarna tvo sólarhringa. Atvikið hefur líka varpað ljósi á misjafnan aðbúnað við knattspyrnuvelli til að takast á við tilfelli eins og þetta.
Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.