Redknapp: Óttaðist það versta

Harry Redknapp ræðir við Kevin Bond, aðstoðarmann sinn.
Harry Redknapp ræðir við Kevin Bond, aðstoðarmann sinn. Reuters

Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham kveðst hafa óttast það versta þegar lífgunartilraunir á Fabrice Muamba fóru af stað á White Hart Lane á laugardaginn, eftir að miðjumaðurinn úr Bolton hneig niður í bikarleik liðanna.

„Hann lá á vellinum og fyrst hélt ég að hann hefði fengið olnbogaskot frá einhverjum. Þegar þeir fóru að gera lífgunartilraunir á honum áttuðum við okkur á því hversu alvarlegt þetta var. Ég óttaðist það versta, enginn okkar trúði því sem var að gerast. Allir voru í sjokki," sagði Redknapp við Sky Sports.

„Læknarnir og bráðaliðarnir voru stórkostlegir, svo birtust hjartasérfræðingar úr röðum áhorfenda og gáfu fyrirskipanir. Þeir voru allir ótrúlegir, áhorfendur voru magnaðir, sýndu gífurlega virðingu, og dómarinn á líka mikinn heiður skilið fyrir hve fagmannlega hann höndlaði aðstæðurnar," sagði Redknapp en fyrrum leikmaður hans, Marc Vivien Foe, lést úr hjartaáfalli í leik með Kamerún árið 2003.

„Marc lék undir minni stjórn hjá West Ham. Það var hryllilegt en Fabrice var heppinn að þetta gerðist á velli úrvalsdeildarliðs. Ef þetta hefði verið áhugamaður í sunnudagsdeild eða utandeild hefði hann líklega ekki lifað þetta af," sagði Redknapp.

Hann staðfesti að leikur Tottenham og Stoke færi fram, en Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke bauð að honum yrði frestað. „Hann sagði að ef okkar leikmenn væru ekki búnir að jafna sig og vildu ekki spila, þá myndi Stoke styðja það, en við verðum að halda áfram og spila. Ég skil að leikmenn Bolton séu ekki tilbúnir að spila, og jafnvel ekki um næstu helgi, því þeir eru svo nánir Fabrice," sagði Harry Redknapp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert