Adebayor ánægður með Muamba

Emmanuel Adebayor.
Emmanuel Adebayor. Reuters

Emmanuel Adebayor, sóknarmaður Tottenham, heimsótti Fabrice Muamba, leikmann Bolton, á London Chest sjúkrahúsið í London í gærkvöld og sagði við Sky Sports að því loknu að það væri afar ánægjulegt að sjá framfarir hans eftir hjartaáfallið sem hann fékk í leik Tottenham og Bolton á laugardaginn.

„Hann er sterkur strákur og hefur gengið í gegnum mikla raun síðustu tvo daga, en hann er farinn að líkjast sjálfum sér aftur, hann reynir að tala eðlilega og viðbrögð hans eru eðlileg, sem er ákaflega mikilvægt.  Þetta lítur vel út núna. Fyrir mig sem vin hans er þetta mikill léttir," sagði Adebayor, sem var í röðum Arsenal á sama tíma og Muamba, árin 2006 til 2007.

„Læknaliðið frá Bolton og Tottenham vann frábært starf og við verðum líka að þakka guði fyrir bata hans. Vonandi nær hann sér hratt og vel. Svo bíðum  við og sjáum hvað gerist þegar hann stígur í fæturna á ný. Það er næsta prófraun," sagði Adebayor.

Emmanuel Adebayor kemur á London Chest sjúkrahúsið.
Emmanuel Adebayor kemur á London Chest sjúkrahúsið. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka