Fabrice Muamba, knattspyrnumaðurinn úr Bolton, var fljótur að spyrja um hvernig bikarleikurinn við Tottenham hefði endað þegar hann komst til meðvitundar eftir hjartaáfallið sem hann fékk í leiknum á laugardaginn.
Fjölskylduvinurinn Aime Esalo sagði við götublaðið The Sun í dag: „Honum var sagt að leiknum hefði verið hætt í stöðunni 1:1. Fabrice spurði hvers vegna það hefði verið gert og faðir hans svaraði: Vegna þín."
Þá hefur verið skýrt frá því að það fyrsta sem Muamba spurði um var hvar Joshua, þriggja ára sonur hans, væri.
Muamba liggur ennþá á gjörgæsludeild London Chest sjúkrahússins en framfarir hans undanfarinn sólarhring hafa komið flestum á óvart. Frændi hans, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði við Evening Standard: „Hann er með opin augu og þekkir fólk. Ég talaði við hann í gær, hann er fær um það. Allt er í góðu lagi, við þökkum guði fyrir það. Hann kemur aftur heim."