Muamba spurði strax um úrslitin

Kevin Davies fyrirliði Bolton á leið á sjúkrahúsið í London …
Kevin Davies fyrirliði Bolton á leið á sjúkrahúsið í London ásamt konu sinni og syni. Reuters

Fabrice Muamba, knattspyrnumaðurinn úr Bolton, var fljótur að spyrja um hvernig bikarleikurinn við Tottenham hefði endað þegar hann komst til meðvitundar eftir hjartaáfallið sem hann fékk í leiknum á laugardaginn.

Fjölskylduvinurinn Aime Esalo sagði við götublaðið The Sun í dag: „Honum var sagt að leiknum hefði verið hætt í stöðunni 1:1. Fabrice spurði hvers vegna það hefði verið gert og faðir hans svaraði: Vegna þín."

Þá hefur verið skýrt frá því að það fyrsta sem Muamba spurði um var hvar Joshua, þriggja ára sonur hans, væri.

Muamba liggur ennþá á gjörgæsludeild London Chest sjúkrahússins en framfarir hans undanfarinn sólarhring hafa komið flestum á óvart. Frændi hans, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði við Evening Standard: „Hann er með opin augu og þekkir fólk. Ég talaði við hann í gær, hann er fær um það. Allt er í góðu lagi, við þökkum guði fyrir það. Hann kemur aftur heim."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert