Læknar lýsa lífgjöf Muamba

Skömmu eftir að Fabrice Muamba féll niður.
Skömmu eftir að Fabrice Muamba féll niður. AFP

Læknarnir sem hlúðu að Fabrice Muamba leikmanni Bolton þegar hann fékk hjartaáfall gegn Tottenham í enska bikarnum í knattspyrnu, hafa allir sagt BBC, breska ríkisfjölmiðlinum, sögu sína. Þar kemur meðal annars fram að umönnunin sem Muamba fékk á vellinum og í sjúkrabílnum á leið sinni á sjúkrahús hafi orðið honum til lífs.

Lesa má og sjá viðtöl við læknana á ensku með því að smella hér. Neðar má svo sjá útdrátt úr viðtölum þeirra á íslensku.

Muamba er sagður hafa verið látinn í 78 mínútur eftir að hann fékk hjartaáfall í umræddum leik. Fjórir læknar sem komu að lífgjöf leikmannsins lýsa því í viðtölum við BBC hvernig þeir börðust við að koma hjarta Muamba til að slá aftur af sjálfsdáðum og atburðarásinni þangað til komið var á London Chest-sjúkrahúsið þangað sem Muamba var fluttur.

Þekkir fjölskyldu Muamba

Shabaaz Mughal er læknir Tottenham og hann hafði eftirfarandi að segja: „Ég var að horfa á leikinn og sá að Fabrice féll við. Það virtist enginn vera nálægt honum frá mínu sjónarhorni. Enginn hafði snert hann.

Mér fannst strax eins og ég þyrfti að fara inn á völlinn þannig að ég tók með mér endurlífgunartilraunatöskuna og kallaði á sjúkraliðana.“

Jonathan Tobin er læknir Bolton og hann lýsti fyrstu mínútunum eftir að Muamba féll í jörðina á þessa leið: „Þegar ég var að hlaupa á völlinn hugsaði ég; Guð minn góður, þetta er Fabrice, ég þekki fjölskyldu hans og lít á hann sem vin.

Ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því að leikmenn höfðu safnast saman og að Owen Coyle knattspyrnustjóri væri einnig kominn.“

Mörg jákvæð teikn á lofti

Læknirinn sem annast Muamba núna, Sam Mohiddin, þakkar skjótum og góðum viðbrögðum á vellinum það að Muamba er á þeim batavegi sem raunin er. „Við höfum heyrt miklar lýsingar. Ég held að það sé sanngjarnt að segja að niðurstaðan hafi verið ótrúleg og ég er þess fullviss að það er þeirri umönnun sem hann fékk á White Hart Lane og sjúkraliðunum að þakka.

Við höfum séð mjög jákvæð merki en megum ekki fara fram úr okkur í væntingum. Vonandi getur hann þó lifað eðlilegu lífi í framtíðinni.“

Þurfti að sannfæra verðina til að komast út á völlinn

Einn læknir til viðbótar sem nokkuð hefur verið í sviðsljósinu kom að atvikinu. Hann heitir Andrew Deaner og er hjartalæknir við London Chest-sjúkrahúsið, þangað sem Muamba var á endanum fluttur. Hann var áhorfandi á leiknum en ákvað í flýti að hlaupa inn á völlinn til að bjóða fram aðstoð sína.

„Um leið og ég sá að endurlífganir á Muamba voru byrjaðar spurði ég bræður mína sem voru með mér á leiknum hvort ég ætti að fara og aðstoða, þeir vildu að ég gerði það.“

Deaner komst framhjá öryggisvörðunum þar sem eldri öryggisvörður heimilaði það eftir að hann sagði þeim að hann væri hjartalæknir. „Ég sá strax að endurlífgunartilraunirnar sem þeir voru byrjaðir að framkvæma voru vel gerðar.“

Ótrúlega fljótir að aðlagast aðstæðum

Læknarnir lýsa því svo hvernig þeir sneru Muamba við og heyrðu hann taka síðustu andköfin áður en hann missti algjörlega meðvitund. Þeir héldu þá áfram lífgunartilraunum en án árangurs. Læknir Bolton lýsir því hversu einbeittir allir voru að björgun Muamba að það hafi ekki verið fyrr en 35 þúsund manns fóru að syngja nafn Muamba að hann hafi áttað sig í raun á hvar hann var og tekið eftir umhverfinu.

Þeir ákváðu síðan eftir að hafa séð viðbrögð annarra leikmanna að fara með Muamba af vellinum og halda lífgunartilraunum áfram í sjúkrabílnum. Á þessum tíma hafði Muamba verið stuðaður með hjartastuðtæki þrisvar sinnum, tvisvar á vellinum og einu sinni í göngunum.

Á leiðinni á London Chest-sjúkrahúsið fékk Muamba stuð alls 12 sinnum eða 15 sinnum frá því hann féll niður. Þá lýsa þeir aðstæðunum í sjúkrabílnum þar sem meðal annars læknir Bolton var í takkaskóm og sleipt á gólfinu í bílnum. Hann sagði það þó ótrúlegt hvað þeim tækist að aðlagast fljótt aðstæðum með verkefni eins og lífgjöf fyrir framan sig.

Fór fram á gang og grét

Jonathan Tobin læknir Bolton lýsir því svo þegar þeir komu á sjúkrahúsið: „Eftir að við komum þangað var ég ekki lengur hluti af læknateyminu. Ég gaf hann því frá mér og þá áttaði ég mig á því hvað hafði gerst. Ég fór fram á gang og grét, kom svo aftur og fylgdist með hvað þeir voru að gera við hann. Þeir voru stórkostlegir.

Það leið um hálftími á sjúkrahúsinu þangað til hjarta hans fór að slá af sjálfsdáðum og hann fór að anda. Í rauninni var hann dáinn á þessum tíma.“

Læknirinn sem er stuðningsmaður Tottenham og hljóp inn á völlinn sagði eftirfarandi í lokin: „Ef það er einhvern tímann hægt að nota orðið kraftaverk, þá býst ég við að það sé hægt í þessu tilviki.“

Owen Coyle (tv) knattspyrnustjóri Bolton gengur af velli í humátt …
Owen Coyle (tv) knattspyrnustjóri Bolton gengur af velli í humátt á eftir sjúkraflutningamönnunum. Reuters
Hugað að Fabrice Muamba.
Hugað að Fabrice Muamba. AP
Leikmenn og þjálfarar í miklu uppnámi.
Leikmenn og þjálfarar í miklu uppnámi. AFP
Muamba hefur fengið mikinn stuðning frá fólki allstaðar að.
Muamba hefur fengið mikinn stuðning frá fólki allstaðar að. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert