Muamba á leiknum gegn Tottenham?

Fabrice Muamba ásamt læknum þegar hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu …
Fabrice Muamba ásamt læknum þegar hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu í London 16. apríl. Reuters

Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton Wanderers, segir að líkur séu á að Fabrice Muamba mæti á leik liðsins við Tottenham á miðvikudagskvöldið. Muamba fékk hjartastopp í leik liðanna á White Hart Lane 17. mars og var nær dauða en lífi í nokkra sólarhringa á eftir.

„Ef Fabrice treystir sér til þá væri leikurinn við Tottenham fínt tækifæri fyrir hann. Við verðum að hafa í huga að eftir allt sem hann hefur gengið í gegnum þá verður það að vera réttur staður og stund fyrir hann, fjölskylduna hans og hjúkrunarfólk. Þá fengju allir tækifæri til að sjá hversu vel honum hefur gengið, og hann fengi tækifæri til að þakka stuðningsmönnum beggja liða, sem voru stórkostlegir daginn sem þetta  gerðist, sem og leikmönnum Tottenham, því sú umhyggja sem þeir sýndu Fabrice var mögnuð," sagði Coyle við BBC.

Leikur liðanna hefur gífurlega þýðingu fyrir þau bæði en Bolton er í harðri fallbaráttu og Tottenham í slag um sæti í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka