Blackburn Rovers, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vor, hefur fengið til sín framherjann Leon Best frá Newcastle og samið við hann til fjögurra ára.
Newcastle keypti Best af Coventry í ársbyrjun 2010 og hann skoraði 10 mörk í 46 leikjum fyrir liðið. Þar á meðal var þrenna gegn West Ham í úrvalsdeildinni í janúar 2011. Síðasta markið fyrir þá röndóttu gerði Best gegn QPR í janúar en hann missti síðan af þremur síðustu mánuðum tímabilsins vegna meiðsla.
Best er 25 ára, landsliðsmaður Írlands, og var hjá Coventry í þrjú ár en þar á undan í þrjú ár í röðum Southampton.
Steve Kean knattspyrnustjóri Blackburn heldur þar með áfram að styrkja lið sitt en hann fékk á dögunum miðjumanninn reynda Danny Murphy frá Fulham.