West Ham United er komið aftur í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu eftir eins árs fjarveru en Lundúnaliðið endurheimti sæti sitt þar í fyrstu tilraun eftir að hafa fallið úr deildinni vorið 2011.
West Ham hafnaði í þriðja sæti B-deildarinnar á síðasta tímabili og vann síðan Cardiff og Blackpool í umspili um úrvalsdeildarsætið.
Mbl.is skoðar á næstu dögum liðin 20 sem leika í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hvernig þau eru skipuð eftir að lokað var fyrir félagaskiptin um mánaðamótin.
West Ham var í íslenskri eigu frá nóvember 2006 þegar Björgólfur Guðmundsson keypti félagið ásamt fleirum. Félagið var í meirihluta eigu Íslendinga þar til David Gold og David Sullivan keyptu meirihluta í því í maí 2010.
Enginn Íslendingur hefur spilað með aðalliði West Ham en Hólmar Örn Eyjólfsson, sem nú leikur með Bochum, var samningsbundinn félaginu frá 2008 til 2011 og lék með vara- og unglingaliði. Eiður Smári Guðjohnsen hefur á síðustu árum í tvígang verið mjög nærri því að semja við félagið.
Sam Allardyce er knattspyrnustjóri West Ham, 57 ára gamall, og tók við liðinu vorið 2011, eftir að það féll úr úrvalsdeildinni. Allardyce á 20 ára feril að baki sem stjóri hjá Limerick á írlandi, Preston, Blackpool, Notts County, Bolton, Newcastle og Blackburn. Sjálfur spilaði hann í 20 ár, lengst með Bolton en einnig talsvert með Preston og Millwall.
West Ham hefur byrjað tímabilið vel, unnið tvo af þremur fyrstu leikjum sínum, 1:0 gegn Aston Villa og 3:0 gegn Fulham. Liðið tapaði hinsvegar 0:3 fyrir Swansea í fyrsta útileiknum.
Lið West Ham er mikið breytt frá síðasta tímabili því Allardyce fékk til sín 12 nýja leikmenn áður en lokað var fyrir félagaskiptin. Í staðinn fóru 11 leikmenn, flestir til liða í neðri deildum.
Af nýju mönnunum hafa Jussi Jääskeläinen, hinn reyndi finnski markvörður, miðvörðurinn James Collins, bakvörðurinn George McCartney, Modibo Maiga, framherji frá Malí, og senegalski varnartengiliðurinn Mohamed Diamé, allir komið við sögu í tveimur eða þremur fyrstu leikjunum og þeir Alou Diarra, Matt Jarvis og Andy Carroll, sem kom í láni frá Liverpool á föstudaginn, hafa spilað einn leik hver. Yossi Benayoun, sem kom aftur til félagsins sem lánsmaður frá Chelsea á síðustu stundu, kemur væntanlega fljótlega inn í liðið.
Í heildina séð hefur lið West Ham styrkst mjög frá sínu tímabili, enda er það nauðsynlegt þegar lið koma upp í úrvalsdeildina. Hópurinn virðist sterkari en þegar liðið var í deildinni síðast og það ætti að eiga alla möguleika á að festa sig í sessi þar á ný. West Ham mun byggja mikið á löngum sendingum og fyrirgjöfum, ekki síst eftir að Andy Carroll bættist við í framlínuna. Liðið verður eflaust ekki það skemmtilegasta á að horfa í deildinni í vetur en það er líkamlega sterkt og kraftmikið.
Lykilmenn verða Andy Carroll og Kevin Nolan í sókninni, Mark Noble og Mohamed Diamé á miðjunni og John Collins í vörninni. Ásamt líklega miðjumanninum Yossi Benayoun.
Þessir leikmenn komu:
Yossi Benayoun frá Chelsea (lán)
Andy Carroll frá Liverpool (lán)
James Collins frá Aston Villa
Mohamed Diamé frá Wigan
Alou Diarra frá Marseille
Stephen Henderson frá Portsmouth
Jussi Jääskeläinen frá Bolton
Matt Jarvis frá Wolves
Modibo Maiga frá Sochaux
George McCartney frá Sunderland
Raphael Spiegel frá Grasshoppers
Þessir leikmenn fóru:
Sam Baldock til Bristol City
Pablo Barrera til Cruz Azul
Jordan Brown til Barnet
Sam Cowler til Barnet
Abdoulaye Faye til Hull
Robert Green til QPR
Nicky Maynard til Cardiff
Cristian Montaro til Oldham
Ravel Morrison til Birmingham (lán)
Frank Nouble til Wolves
Freddie Sears til Colchester
Leikmenn West Ham United 2012-13.
Kevin Nolan hefur skorað 2 mörk í fyrstu þremur umferðunum og þeir Matt Taylor og Winston Reid hafa gert sitt markið hvor.