Ensku liðin kynnt - QPR

Queens Park Rangers slapp naumlega við fall úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili. Liðið endaði í 17. sæti og var einu stigi fyrir ofan Bolton en QPR slapp þrátt fyrir tap gegn Manchester City í lokaumferðinni því Bolton tókst ekki að vinna sinn leik á sama tíma.

QPR kom uppí úrvalsdeildina vorið 2011 í fyrsta skipti í 15 ár en liðið féll þaðan vorið 1996 eftir að hafa endað í áttunda sætinu árið áður.

Heiðar Helguson er eini Íslendingurinn sem hefur leikið með QPR. Hann kom til félagsins árið 2008 og var markahæsti leikmaður þess í úrvalsdeildinni síðasta vetur en fór til Cardiff City í síðasta mánuði.

Mark Hughes er knattspyrnustjóri QPR en hann tók við liðinu í janúar á þessu ári þegar Neil Warnock var sagt upp störfum. Hughes er 48 ára Walesbúi sem lék á fjórða hundrað deildaleiki með Manchester United og spilaði einnig með Barcelona, Bayern München, Chelsea, Southampton, Everton og Blackburn. Hann var landsliðsþjálfari Wales 1999-2004 en síðan stjóri hjá Blackburn, Manchester City og Fulham.

Mikið hefur gengið á síðustu árin hvað varðar eignarhaldið á QPR. Kappakstursmógúlarnir Flavio Briatore og Bernie Ecclestone áttu það um tíma en eru endanlega horfnir frá félaginu. Malasíski kaupsýslumaðurinn Tony Fernandes hefur verið aðaleigandi og stjórnarformaður síðan í ágúst 2011.

QPR var umsvifamest allra liða í sumar og náði sér í 12 nýja leikmenn. Óhætt er að segja að liðið sé gjörbreytt frá síðasta tímabili. Af nýju mönnunum hafa Rob Green markvörður, miðjumaðurinn Park Ji-Sung, lánsmaðurinn og bakvörðurinn Fabio, varnarmennirnir José Bosingwa og Ryan Nelsen, miðjumaðurinn Samba Diakite, framherjarnir Junior Hoilett og Andrew Johnson og miðjumaðurinn spænski Esteban Granero þegar komið við sögu í fyrstu umferðunum.

Þá er brasilíski markvörðurinn Júlio César kominn í hópinn, Kieron Dyer er byrjaður að spila eftir langvarandi meiðsli og hinn flinki en misjafni Abel Taarabt og varnarmennirnir Anton Ferdinand og Nenad Onuoha ásamt kantmanninum reynda Shaun Wright-Phillips gefa liðinu góða breidd. Bobby Zamora og Djibril Cissé eru alltaf líklegir til að skora mörk. Joey Barton er áfram í röðum QPR en er í 12 leikja banni eftir uppákomu gegn Manchester City í lokaumferðinni í vor og hefur verið lánaður til Marseille í Frakklandi í bili.

Miðað við leikmannahópinn sem Hughes hefur fengið til sín ætti hann að geta komið QPR ofar í deildina en eflaust tekur tíma fyrir nýtt lið að stilla saman strengina. Það mun allavega ekki þykja ásættanlegt eftir alla þá peninga sem settir hafa verið í liðið að það verði í fallbaráttu. Byrjunin er þó ekki góð og QPR situr á botninum með eitt stig eftir 0:5 tap heima gegn Swansea og 1:3 úti gegn Manchester City, ásamt 1:1 jafntefli við Norwich á útivelli.

Þessir eru komnir:
José Bosingwa frá Chelsea
Júlio César frá Inter Mílanó
Fabio Da Silva frá Manchester United (lán)
Samba Diakite frá Nancy
Esteban Granero frá Real Madrid
Robert Green frá West Ham
Junior Hoilett frá Blackburn
Park Ji-Sung frá Manchester United
Andrew Johnson frá Fulham
Sam Magri frá Portsmouth
Stéphane Mbia frá Marseille
Ryan Nelsen frá Tottenham

Þessir eru farnir:
Patrick Agyemang til Stevenage
Joey Barton til Marseille (lán)
Jay Bothroyd til Sheffield Wednesday (lán)
Lee Cook til Leyton Orient
Daniel Gabbidon, óvíst
Fitz Hall til Watford
Heiðar Helguson til Cardiff
Paddy Kenny til Leeds
Peter Ramage til Crystal Palace
Daniel Shittu til Millwall
Tommy Smith til Cardiff
Rowan Vine til St. Johnstone

Leikmenn QPR 2012-2013.

Bobby Zamora er sá eini sem hefur skorað fyrir QPR til þessa á tímabilinu en hann hefur gert bæði mörk liðsins í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert