Reading er komið upp í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu eftir fjögurra ára fjarveru en liðið vann B-deildina á síðasta tímabili, í annað sinn á sex árum. Reading lék í úrvalsdeildinni í tvö ár, 2006 til 2008, og komst í efri hlutann fyrra árið en féll afar naumlega seinna árið.
Undanfarin ár eru þau stærstu í sögu Reading sem þreytti frumraun sína í efstu deild 2006-2007.
Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru í stóru hlutverki í liði Reading þegar það fór upp vorið 2006 og spiluðu mikið með því í úrvalsdeildinni næstu tvö árin. Ívar var þá um skeið fyrirliði liðsins. Ívar lék með félaginu í 8 ár, 2003-2011 og Brynjar, sem kom þangað 2005, er enn í röðum Reading. Hann spilaði reyndar aðeins þrjá leiki síðasta vetur en var samt boðinn áframhaldandi samningur. Ekki er reiknað með að hann komi mikið við sögu í úrvalsdeildinni í vetur en Brynjar er farinn að koma að þjálfun hjá félaginu, auk þess að vera til taks ef með þarf.
Tengingin við Ísland er mikil síðustu árin því Gylfi Þór Sigurðsson var í röðum félagsins frá 2006 og þar til hann var seldur til Hoffenheim fyrir 7 milljónir punda í ágúst 2010. Hann er dýrasti leikmaður sem Reading hefur selt. Þá lék Gunnar Heiðar Þorvaldsson nokkra leiki með liðinu í B-deildinni snemma árs 2010 og Viktor Unnar Illugason spilaði með unglinga- og varaliði Reading 2007-2008.
Reading hefur aðeins leikið tvo leiki í deildinni til þessa. Gerði fyrst 1:1-jafntefli við Stoke á heimavelli og tapaði síðan 2:4 fyrir Chelsea á Stamford Bridge. Leik liðsins við Sunderland var frestað vegna veðurs og vallarskilyrða.
Hlutskipti Reading verður vafalítið að reyna að halda sig frá fallsvæðinu í deildinni og gera aðra atlögu að því að festa sig í sessi í hópi bestu liða Englands. Félagið hefur verið byggt upp markvisst undanfarin 20 ár eftir að John Madejski varð aðaleigandi þess en fram að því hafði það alið aldurinn í neðri deildum Englands. Madejski, sem er löngu orðinn að goðsögn í bænum Reading, seldi fyrr á þessu ári meirihluta í félaginu til rússneska auðjöfursins Antons Zingarevich en situr áfram sem stjórnarformaður.
Brian McDermott er knattspyrnustjóri Reading en hann tók við liðinu í árslok 2009 þegar Brendan Rodgers var sagt upp störfum. McDermott er 51 árs og lék með Arsenal í sex ár en síðan með Fulham, Norrköping, Oxford, Huddersfield, Cardiff, Exeter og Yeovil. Hann lauk ferlinum sem leikmaður Slough Town og var þar jafnframt knattspyrnustjóri í tvö ár. Eftir að hafa stýrt utandeildaliðum í fjögur ár réðst hann til Reading sem þjálfari árið 2000 og var þar í níu ár, sem þjálfari unglinga- og varaliðs þar til hann tók við aðalliðinu.
Reading fékk átta nýja leikmenn í sumar til að styrkja sig fyrir baráttuna í úrvalsdeildinni. Þar eru fremstir í flokki rússneski framherjinn Pavel Pogrebnjak sem kom frá Fulham, bakvörðurinn Nicky Shorey sem sneri aftur til félagsins en hann var þar í lykilhlutverki fyrir nokkrum árum, og miðjumaðurinn Danny Guthrie. Þá hafa varnarmaðurinn Chris Gunter og miðjumaðurinn Garath McCleary báðir spilað tvo fyrstu leikina í úrvalsdeildinni.
Meðal annarra lykilmanna eru írski framherjinn Noel Hunt, jamaíski miðumaðurinn Jobi McAnuff og varnartengiliðurinn Mikele Leigertwood, og þá er í liðinu hinn sparkvissi og reyndi vinstri bakvörður frá Írlandi, Ian Harte.
Þessir eru komnir:
Chris Gunter frá Nottingham Forest
Danny Guthrie frá Newcastle
Adrian Mariappa frá Watford
Garath McCleary frá Nottingham Forest
Pavel Pogrebnjak frá Fulham
Nicky Shorey frá WBA
Pierce Sweeney frá Bray Wanderers
Stuart Taylor frá Manchester City
Þessir eru farnir:
Mikkel Anderson til Portsmouth (lán)
Michail Antonio til Sheffield Wednesday (lán)
Harry Cooksley til Aldershot
Michael Hector til Shrewsbury (lán)
Angus MacDonald til Wimbledon (lán)
Mathieu Manset til Sion
Joseph Mills til Burnley (lán)
Karl Sheppard til Accrington (lán)
Þeir Adam Le Fondre, Pavel Pogrebnjak og Danny Guthrie hafa skorað mörk Reading í deildinni til þessa. Le Fondre skoraði 50 mörk á tveimur tímabilum fyrir Rotherham áður en Reading keypti hann fyrir ári síðan, og hann gerði 12 mörk fyrir liðið í B-deildinni í fyrra.