Wigan Athletic hafnaði í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á síðasta keppnistímabili og lék þar með enn einu sinni þann leik að bjarga sér frá falli með frábærum endaspretti.
Wigan hefur árlega verið spáð falli úr deildinni síðan liðið lék þar fyrst, tímabilið 2005-2006, en það hefur aldrei gengið eftir þó oft hafi munað litlu. Síðasta vor vann liðið fimm af síðustu sex leikjum sínum og lagði þá m.a. Manchester United, Arsenal og Newcastle að velli á mögnuðum lokakafla tímabilsins.
Roberto Martínez er knattspyrnustjóri Wigan en hann er 39 ára gamall Spánverji sem lék sjálfur með Wigan í sex ár en síðan með Motherwell, Walsall, Swansea og Chester. Hann var ráðinn stjóri Swansea árið 2007 og var þar í tvö ár, fór með liðið uppí ensku B-deildina fyrra árið, en tók síðan við Wigan sumarið 2009 og hefur verið þar við stjórnvölinn síðan.
Dave Whelan er aðaleigandi og stjórnarformaður Wigan en hann keypti félagið árið 1995 þegar það lék í D-deildinni og var þá í 84. sæti af 92 deildaliðum í Englandi. Roberto Martínez var þá einn þriggja spænskra leikmanna sem Whelan fékk til félagsins og byggði liðið upp í kringum þá fyrstu árin. Whelan lýsti því yfir að hann ætlaði með Wigan í úrvalsdeildina. Margir gerðu grín að orðum hans en Whelan stóð við stóru orðin. Wigan var komið í hóp þeirra bestu eftir 10 ár og er nú að hefja sitt áttunda tímabil þar.
Wigan tapaði fyrsta leiknum í deildinni í ágúst gegn Chelsea á heimavelli, 0:2, en vann síðan Southampton 2:0 á útivelli og gerði jafntefli, 2:2, við Stoke á heimavelli í þriðju umferðinni.
Wigan fékk fjóra nýja leikmenn í sumar. Spænski varnarmaðurinn Iván Ramis og Arouna Koné, framherji frá Fílabeinsströndinni, hafa farið beint í liðið og verða greinilega í stórum hlutverkum og þá hefur Ryo Miyaichi, 19 ára japanskur lánsmaður frá Arsenal, komið við sögu í byrjun móts. Góðir leikmenn hurfu á braut, Victor Moses, Hugo Rodallega og Mohamed Diame, þannig að leikmannahópurinn hefur ekki styrkst á milli ára.
Ali Al Habsi, markvörður frá Óman, varnarmennirnir Antolín Alcáraz frá Paragvæ, Gary Caldwell frá Skotlandi og Maynor Figueroa frá Hondúras, spænski miðjumaðurinn Jordi Gómez og argentínski framherjinn Franco Di Santo verða væntanlega ásamt Ramis og Koné helstu lykilmenn Wigan á tímabilinu.
Wigan verður eflaust í árlegri baráttu fyrir lífi sínu í úrvalsdeildinni en óhætt er að segja að á þeim bænum séu menn orðnir sjóaðir í slíku. Þetta er yngsta og minnsta félagið í deildinni og mögnuð frammistaða þess virðist oft fara í taugarnar á sumum knattspyrnuspekingum sem virðast telja að það sé ekki deildinni samboðið að Wigan sé þar sem það er.
Menn hafa bent á stórar eyður á áhorfendapöllunum á heimaleikjum félagsins sem sönnun þess að félagið eigi ekki að vera á meðal þeirra bestu. En þess ber að geta að DW-leikvangurinn rúmar næstum þriðjung bæjarbúa í Wigan.
Wigan hefur síðustu árin spilað stöðugt betri fótbolta, enda í höndunum á Martínez sem byggði upp Swansea-liðið sem er á allra vörum í dag. Þá eru ekki miklar breytingar á liðinu og kann það að koma því til góða, sérstaklega framan af vetri, ekki síst þegar horft er til þess hve vel liðið endaði síðasta tímabil.
Þessir eru komnir:
Fraser Fyvie frá Aberdeen
Arouna Koné frá Levante
Ryo Miyaichi frá Arsenal (lán)
Iván Ramis frá Mallorca
Þessir eru farnir:
Mohamed Diame til West Ham
Nouha Dicko til Blackpool (lán)
Steve Gohouri til Maccabi Tel Aviv
Roman Golobart til Tranmere (lán)
Chris Kirkland til Sheffield Wednesday
Victor Moses til Chelsea
Lee Nicholls til Northampton (lán)
Hugo Rodallega til Fulham
Conor Sammon til Derby
Ryan Watson til Accrington (lán)
Franco Di Santo hefur skorað 2 marka Wigan í fyrstu umferðum deildarinnar og þeir Shaun Maloney og Arouna Koné sitt markið hvor.