Norwich City kom skemmtilega á óvart í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á síðasta vetri og hafnaði í 12. sæti en fæstir áttu von á því fyrirfram að nýliðarnir þáverandi ættu nokkurt erindi í deild þeirra bestu. Norwich lék þá í deildinni á ný eftir sex ára fjarveru og kom beint uppúr C-deildinni á tveimur árum.
Liðið var ágætlega sett um miðja deild mestallt tímabilið og dróst aldrei niður í fallbaráttu. Norwich fékk að lokum 47 stig, jafnmörg og WBA og Swansea sem voru í næstu sætum fyrir ofan. Að margra mati var Norwich lið ársins í deildinni fyrir þessa óvæntu frammistöðu.
Nýjasta endurkoma Norwich, sem samtals hefur leikið 21 ár í efstu deild, hófst á all sérstakan hátt. Liðið féll úr B-deildinni vorið 2009 og byrjaði C-deildina hörmulega síðar um sumarið því þá steinlá það á heimavelli, 1:7, fyrir nágrannaliðinu Colchester. Versti skellurinn á heimavelli í sögu félagsins.
Þá sauð uppúr, vægast sagt. Tveir ársmiðahafar hlupu inná völlinn í miðjum leik og rifu miðana sína og stjórinn Bryan Gunn var rekinn eftir leikinn. Paul Lambert var ráðinn í staðinn og hann reif liðið heldur betur upp og fór með það beint upp um tvær deildir á tveimur árum.
Chris Hughton er knattspyrnustjóri Norwich og var ráðinn til félagsins í sumar eftir að Paul Lambert hætti til að taka við liði Aston Villa. Hughton er 53 ára gamall Íri sem lék tæplega 300 leiki með Tottenham og síðan með West Ham og Brentford, auk 53 landsleikja fyrir Írland. Hughton var aðstoðarstjóri Tottenham í tíu ár en tók fyrst við Newcastle til bráðabirgða í stuttan tíma haustið 2008 og aftur 2009. Hann var síðan ráðinn í starf knattspyrnustjóra seint á árinu 2009 en var rekinn í desember 2010. Hann stýrði Birmingham tímabilið 2011-12 en tók síðan við Norwich.
Norwich City FC er hlutafélag, með yfir 8.000 hluthafa, og meirihlutaeigendur eru hjónin Michael Wynn-Jones, fyrrum ritstjóri Daily Mirror, og Delia Smith, einn þekktasti höfundur matreiðslubóka í Englandi.
Norwich hefur heldur styrkt leikmannahópinn í sumar. Engir lykilmenn fóru en átta nýir eru komnir. Af þeim hafa varnarmennirnir Sébastien Bassong og Michael Turner, og miðjumaðurinn Robert Snodgrass verið í liðinu í fyrstu leikjunum. Þá er Steven Whittaker, sem yfirgaf þrotabú Rangers, skoskur landsliðsmaður sem á væntanlega eftir að koma við sögu.
Framherjinn Grant Holt var í stóru hlutverki hjá Norwich síðasta vetur og skoraði 15 mörk í deildinni eftir að hafa gert 45 mörk í C- og B-deildunum næstu tvö tímabil á undan. Líklega þarf Norwich að treysta talsvert á hann áfram í vítateig mótherjanna. Markvörðurinn John Ruddy vann sér sæti í enska landsliðshópnum með frammistöðu sinni síðasta vetur. Hann var valinn í enska landsliðið fyrir EM en fingurbrotnaði og missti af keppninni. Ruddy lék síðan sinn fyrsta landsleik í ágúst.
Oft er talað um að annað tímabilið í efstu deild sé erfiðara en það fyrsta og í vetur reynir á hvort Norwich sé "eins-tímabils-undur" eða hvort félaginu takist að byggja ofan á óvæntan árangur. Ekki byrjaði það vel, 0:5 skellur gegn Fulham í fyrsta leik, en því fylgdu 1:1 jafntefli við QPR heima og 1:1 jafntefli við Tottenham á útivelli þar sem Norwich var hársbreidd frá sigri. En það þarf ekki að koma á óvart að hlutskipti Norwich í vetur verði að berjast grimmilega fyrir lífi sínu í deildinni og rétt eins og fyrir síðasta tímabil er liðinu spáð erfiðri fallbaráttu.
Þessir eru komnir:
Sébastien Bassong frá Tottenham
Mark Bunn frá Blackburn
Jacob Butterfield frá Barnsley
Harry Kane frá Tottenham (lán)
Robert Snodgrass frá Leeds
Alexander Tettey frá Rennes
Michael Turner frá Sunderland
Steven Whittaker frá Rangers
Þessir eru farnir:
Tom Adeyemi til Brentford (lán)
Daniel Ayala til Nottingham Forest (lán)
Andrew Crofts til Brighton
Adam Drury til Leeds
George Francomb til Wimbledon (lán)
James Vaughan til Huddersfield (lán)
Zak Whitbread til Leicester
Aaron Wilbraham til Crystal Palace
Leikmenn Norwich City 2012-2013.
Þeir Robert Snodgrass og kanadíski framherjinn Simeon Jackson hafa skorað mörkin tvö fyrir Norwich í deildinni til þessa.