Ensku liðin kynnt - Swansea

Swansea City hafnaði í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á síðasta tímabili en þá lék félagið í efstu deild í fyrsta skipti í 29 ár. Swansea er annað tveggja félaga frá Wales sem hefur spilað í efstu deild í Englandi en það var áður í deildinni á árunum 1981-1983.

Swansea slapp uppí deildina fyrir hálfu öðru ári í gegnum umspil í B-deildinni og búist var við erfiðum vetri á þeim bænum. Annað kom á daginn, Swansea hreif marga fótboltaáhugamenn með sérlega áferðarfallegum fótbolta sem byggir á stuttu spili, ekki ósvipað og Barcelona hefur sýnt undanfarin ár, enda hafði liðið af mörgum verið kallað Barcelona B-deildarinnar síðustu árin.

Þetta er í annað sinn sem Swansea kemur í efstu deildina og í fyrra skiptið gerði félagið það líka með talsverðum látum. Þá rauk það uppúr D-deildinni og í efstu deild á þremur árum frá 1978 til 1981, undir stjórn Johns Toshacks, kornungs knattspyrnustjóra, og trónaði á toppi hennar eftir 10 umferðir haustið 1981. Liðið endaði í 6. sæti, en eftir það hrundi það nánast jafnhratt niður deildirnar, var komið niður í D-deildina á ný 1986 og var nærri gjaldþroti á þeim tíma.

Gylfi Þór Sigurðsson er eini Íslendingurinn sem hefur spilað með Swansea en hann lék með liðinu sem lánsmaður frá Hoffenheim seinnipart síðasta vetrar. Gylfi sló í gegn og skoraði 7 mörk í 18 leikjum í úrvalsdeildinni en fór síðan til Tottenham í sumar.

Uppbygging Swansea undanfarin ár hefur verið afar athyglisverð. Spánverjinn Roberto Martínez, sem nú stýrir Wigan, kom ævintýrinu af stað og fór með liðið uppúr C-deildinni 2008. Brendan Rodgers tók við af honum og hélt áfram á sömu braut, með sömu áherslur, og kom liðinu í úrvalsdeildina þar sem það gerði það gott síðasta vetur. Hjá Swansea hafa litlir og liprir fótboltamenn með mikla tækni fengið að njóta sín en þetta eru að miklu leyti leikmenn sem ekki hafa náð sér á strik eða fengið tækifæri annars staðar.

Daninn Michael Laudrup tók við sem knattspyrnustjóri Swansea í sumar eftir að Brendan Rodgers hvarf á braut til að taka við Liverpool. Laudrup er 48 ára gamall, einn þekktasti knattspyrnumaður Dana á árum áður og spilaði 104 landsleiki en hann lék með KB, Bröndby, Juventus, Lazio, Barcelona, Real Madrid, Vissel Kobe í Japan og loks Ajax en Laudrup skoraði um 130 mörk í tæplega 500 deildaleikjum með þessum liðum. Laudrup stjórnaði fyrst liði Bröndby í fjögur ár en síðan Getafe á Spáni, Spartak Moskva í Rússlandi og Mallorca á Spáni.

Samtök stuðningsmanna Swansea City eiga 20 prósenta hlut í félaginu, og koma mun meira að rekstri félagsins en gengur og gerist, og enginn hluthafi á meira en 22,5 prósent. Stjórnarformaður félagsins er Huw Jenkins og hann á 12,5 prósenta hlut í félaginu.

Swansea hefur séð á bak þremur lykilmönnum frá síðasta tímabili því Gylfi Þór Sigurðsson, Joe Allen og Scott Sinclair eru komnir til Tottenham, Liverpool og Manchester City. Í staðinn hafa spænsku áhrifin hjá félaginu verið aukin á ný með því að fá sóknartengiliðinn Michu til að leysa Gylfa af hólmi og varnarmanninn Chicu til að þétta raðirnar aftast og Pablo Hernández hefur líka bæst við en hefur ekki spilað ennþá. Hollendingurinn Jonathan de Guzmán er líka kominn á miðjuna. Þá er suður-kóreski miðjumaðurinn Ki Sung-Yueng nýkominn og búinn að spila einn leik.

Þessar breytingar virðast ætla að virka því Swansea hefur farið geysilega vel af stað. Liðið burstaði QPR 5:0 á útivelli í fyrstu umferð og vann síðan West Ham sannfærandi, 3:0, en gerði síðan 2:2 jafntefli við Sunderland.

Aðrir lykilmenn Swansea eru framherjinn Danny Graham, kantmennirnir Wayne Routledge og Nathan Dyer, miðjumaðurinn Leon Britton sem er heilinn í spilinu og er oft líkt við hinn spænska Xavi, hægri bakvörðurinn Ángel Rangel og hollenski markvörðurinn Michel Vorm.

Þessir eru komnir:
Jonathan de Guzmán frá Villarreal (lán)
José Manuel Flores (Chicu) frá Genoa
Pablo Hernández  frá Valencia
Michu frá Rayo Vallecano
Jamie Proctor frá Preston
Ki Sung-Yueng frá Celtic

Þessir eru farnir:
Joe Allen til Liverpool
Federico Bessone til Swindon (lán)
Stephen Dobbie til Brighton
Andrea Orlandi til Brighton
Gylfi Þór Sigurðsson til Hoffenheim (úr láni)
Scott Sinclair til Manchester City
Joe Walsh til Crawley

Leikmenn Swansea City 2012-2013.

Michu hefur farið vel af stað og skorað 4 mörk í fyrstu þremur leikjum Swansea í deildinni. Nathan Dyer hefur skorað 2 mörk og þeir Danny Graham, Ángel Rangel, Scott Sinclair og Wayne Routledge sitt markið hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert