Ensku liðin kynnt - Fulham

Fulham vann ekki í fyrstu sex umferðum ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en vann sig svo hægt og bítandi upp töfluna og endaði í 9. sæti, eða um miðja deild eins og raunin hefur orðið síðustu ár.

Fulham vann sig upp úr þriðju efstu deild árið 1999 undir stjórn Kevin Keegan sem tók svo við enska landsliðinu. Chris Coleman var þá fyrirliði liðsins en hann átti eftir að taka við stjórninni síðar. Tveimur árum síðar vann liðið sér svo sæti í úrvalsdeildinni undir stjórn Frakkans Jean Tigana en þá skoraði Louis nokkur Saha 27 mörk í deildinni. Fulham hefur svo vegnað ágætlega í úrvalsdeildinni en slapp reyndar afar naumlega við fall 2007 og 2008.

Heiðar Helguson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa báðir leikið með Fulham. Heiðar lék með liðinu tvær leiktíðir á árunum 2005-2007 og skoraði 11 mörk í úrvalsdeildinni en Eiður kom að láni frá Stoke í janúar á síðasta ári og náði ekki að skora fyrir liðið.

Hollendingurinn Martin Jol tók við Fulham af Mark Hughes fyrir síðustu leiktíð og getur verið ánægður með fyrsta tímabilið þó að liðið hafi fallið úr leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, stigi á eftir Wisla Kraków frá Póllandi. Jol er 56 ára gamall og hefur lengst af starfað í Hollandi en hann er með góða reynslu úr ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa stýrt Tottenham árin 2004-2007 með misgóðum árangri.

Egypski auðkýfingurinn Mohamed Al-Fayed hefur verið eigandi Fulham frá því skömmu fyrir aldamót og á stærstan þátt í því að liðið skuli vera orðið stöndugt úrvalsdeildarlið. Al-Fayed er vel þekktur í Bretlandi en hann er meðal annars fyrrverandi eigandi Harrod-verslunarinnar og rappaði eftirminnilega í sjónvarpsþætti Ali G á sínum tíma eins og sjá má hér.

Fulham hefur aðallega fengið til sín nýja sóknarmenn í sumar eftir að hafa látið frá sér Andrew Johnson og Rússann Pavel Pogrebnjak sem þótti leika vel á seinni hluta síðustu leiktíðar, og nú síðast þá Clint Dempsey og Moussa Dembélé til Tottenham. Dempsey var algjör lykilmaður á síðustu leiktíð og skoraði 17 mörk í deildinni, og Dembélé var orðaður við stórlið á borð við Real Madrid í sumar.

Í staðinn hefur Jol fengið til sín gamlan lærisvein frá Hamburg, króatíska framherjann Mladen Petric sem byrjað hefur vel í Englandi, Kólumbíumanninn Hugo Rodallega frá Wigan og síðast en ekki síst Búlgarann Dimitar Berbatov frá Manchester United. Allir eiga þessir leikmenn að geta skilað mörkum í vetur. Þá er kantmaðurinn Kieran Richardson kominn frá Sunderland en gamla brýnið Danny Murphy hélt til Blackburn.

Norðmaðurinn Brede Hangeland er lykilmaður í liði Fulham enda sterkur miðvörður og afar hættulegur í vítateig andstæðinganna. Írinn Damien Duff verður áfram í stóru hlutverki hjá Fulham og vonir standa til að sóknarsinnaði Kosta Ríku-búinn Bryan Ruiz sýni meira en á síðustu leiktíð.

Fulham byrjaði leiktíðina með sýningu gegn Norwich, vann 5:0 sigur, en tapaði svo gegn Manchester United og West Ham. Liðið ætti að geta endað á svipuðum slóðum og á síðustu leiktíð ef þeir sem komnir eru hafa það sem til þarf til að fylla skarð Clint Dempsey.

Þessir eru komnir:
Dimitar Berbatov frá Manchester United
Chris David frá Twente
Ashkan Dejagah frá Wolfsburg
Mladen Petric frá Hamburger SV
Sascha Riether frá Köln (lán)
Kieran Richardson frá Sunderland
Hugo Rodallega frá Wigan
George Williams frá MK Dons

Þessir eru farnir:
Moussa Dembélé til Tottenham
Clint Dempsey til Tottenham
Dickson Etuhu til Blackburn
Corey Gameiro til FC Eindhoven (lán)
Marcel Gecov til Gent
Andrew Johnson til QPR
Danny Murphy til Blackburn
Pavel Pogrebnjak til Reading
Björn Helge Riise til Lilleström

Leikmenn Fulham 2012-2013.

Damien Duff og Mladen Petric hafa skorað tvö mörk hvor fyrir Fulham á leiktíðinni og þeir Steve Sidwell og Svíinn Alexander Kacaniklic sitt markið hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert