West Bromwich Albion kom mörgum á óvart á síðustu leiktíð með besta árangri sínum frá stofnun úrvalsdeildarinnar en liðið endaði í 10. sæti. WBA hefur verið á flakki milli efstu og næstefstu deildar á þessari öld en er nú að hefja þriðja tímabil sitt í röð í úrvalsdeildinni.
Lárus Orri Sigurðsson varnarmaður lék með WBA frá 1999 til 2004, þar af eitt tímabil í úrvalsdeildinni, áður en hann sneri heim í Þór. Lárus Orri er nú þjálfari KF sem er í toppbaráttu 2. deildar. Á mála hjá WBA eru nú leikmenn á borð við James Hurst og Sam Mantom sem spilað hafa hérlendis með ÍBV og Haukum.
Það var Roy Hodgson sem náði árangrinum góða á síðustu leiktíð en hann var í kjölfarið ráðinn þjálfari enska landsliðsins sem hann stýrir nú.
Við starfi knattspyrnustjóra tók Steve Clarke en þetta er í fyrsta sinn sem hann er ráðinn aðalknattspyrnustjóri. Hann var áður aðstoðarmaður Kenny Dalglish hjá Liverpool eftir að hafa verið aðstoðarknattspyrnustjóri hjá Chelsea og West Ham. Clarke er 49 ára gamall Skoti sem á alveg eftir að sanna sig sem knattspyrnustjóri þó að tímabilið hafi byrjað mjög vel.
Jeremy Peace er aðaleigandi WBA en hann tók við stöðu stjórnarformanns árið 2002 eftir að þáverandi formaður, Paul Thompson, hafði lent í deilum við knattspyrnustjórann Gary Megson.
Markvörðurinn Ben Foster var einn albesti leikmaður WBA á síðustu leiktíð en hann var þá lánsmaður frá Birmingham. Foster hélt marki sínu hreinu í tíu leikjum og það lá því beinast við að WBA keypti leikmanninn í sumar eins og raunin varð. WBA hefur einnig fengið til sín menn á borð við belgíska sóknarmanninn Romelu Lukaku frá Chelsea að láni, sænska landsliðsframherjann Markus Rosenberg, og argentínska miðjumanninn Claudio Yacob sem á að baki þrjá landsleiki fyrir Argentínu.
Liðið hélt öllum sínum lykilmönnum, þar á meðal fyrirliðanum Chris Brunt sem hefur notið sín mjög vel í úrvalsdeildinni og framherjanum Peter Odemwingie sem skoraði 15 mörk á fyrstu leiktíð sinni á Englandi en reyndar aðeins 10 á síðustu leiktíð. Þá er Ungverjinn Zoltán Gera farinn að spila aftur eftir margra mánaða fjarveru vegna meiðsla og hann skoraði strax í fyrsta leik þegar WBA vann Liverpool 3:0.
Ef allt gengur að óskum ætti WBA að geta endað á svipuðum slóðum og á síðustu leiktíð. Byrjunin, sjö stig af níu mögulegum, gefur góð fyrirheit en það má lítið út af bregða til að liðið dragist ekki niður í fallbaráttuna.
Þessir eru komnir:
Yassine El Ghanassy frá Gent (lán)
Ben Foster frá Birmingham
Romelu Lukaku frá Chelsea (lán)
Goran Popov frá Dynamo Kiev
Markus Rosenberg frá Werder Bremen
Claudio Yacob frá Racing Club
Þessir eru farnir:
Keith Andrews til Bolton
Simon Cox til Nottingham Forest
Paul Downing til WBA
Lateef Elford-Alliyu til Bury
Marton Fülöp til Asteras Tripoli
Joe Mattock til Sheffield Wednesday
Paul Scharner til Hamburger SV
Nicky Shorey til Reading
Somen Tchoyi, óvíst
Gareth McAuley, Zoltán Gera, James Morrison, Peter Odemwingie, Shane Long og Romelu Lukaku hafa allir skorað fyrir WBA í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.