Ensku liðin kynnt - Everton

Everton tapaði ekki leik í síðustu níu umferðunum á síðustu leiktíð og hafnaði í 7. sæti í ensku úrvalsdeildinni, fjórum stigum fyrir ofan erkifjendurna í Liverpool. Everton hefur átt góðu gengi að fagna síðustu ár og ávallt endað á bilinu 5.-8. sæti frá árinu 2007 en tímabilið í ár er það 59. í röð hjá liðinu í efstu deild.

Everton komst í undanúrslit enska bikarsins en tapaði þar fyrir Liverpool og komst því ekki í Evrópukeppni að þessu sinni.

FH-ingurinn Bjarni Þór Viðarsson er eini Íslendingurinn sem hefur verið hjá Everton en hann var hjá liðinu til tvítugs, árin 2004-2008, án þess þó að leika fyrir aðallið félagsins. Bjarni er nú hjá Silkeborg í Danmörku.

Knattspyrnustjórinn David Moyes hefur verið með Everton frá árinu 2002 en hann þjálfaði áður Preston North End. Skotanum er að miklu leyti þakkaður góður árangur síðustu ár en í janúar varð hann aðeins fjórði stjórinn til að stýra liði til sigurs í 150 leikjum í úrvalsdeildinni. Aðeins Sir Alex Ferguson, Arsene Wenger og Harry Redknapp höfðu afrekað það. Ferguson og Wenger eru einnig þeir einu sem hafa verið lengur með sitt lið en Moyes af liðunum á Englandi.

Everton er hlutafélag en Bill Kenwright stjórnarformaður á fjórðungshlut í félaginu og hefur verið stærsti hluthafinn síðustu átta ár. Kenwright er þekktur leikhús- og kvikmyndaframleiðandi í Englandi en hann hefur setið í stjórn Everton frá árinu 1989.

Everton hefur ekki verið þekkt fyrir miklar mannabreytingar síðustu ár og litlu eytt í nýja leikmenn. Ekki varð breyting á því í ár þó að miðjumaðurinn efnilegi Jack Rodwell væri seldur til Manchester City fyrir 12 milljónir punda. Liðið fékk þó Steven Pienaar aftur frá Tottenham en þessi suður-afríski miðjumaður kom að láni í janúar og sýndi að hann kann best við sig í bláa búningnum. Belgíski kant- og sóknarmaðurinn Kevin Mirallas kom frá Grikklandi og skoraði tvennu í deildabikarnum á dögunum í fyrsta byrjunarliðsleiknum sínum. Þá er skoski landsliðsmaðurinn Steven Naismith kominn.

Everton lét hins vegar einn sinn albesta leikmann undanfarin ár, hinn 32 ára gamla Ástrala Tim Cahill, fara auk áðurnefnds Rodwell og þar er skarð fyrir skildi.

Ein óvæntasta stjarna síðustu leiktíðar í úrvalsdeildinni var króatíski sóknarmaðurinn sem kom til Everton frá Rangers í janúar og sallaði inn mörkum, skoraði alls níu í deildinni. Darron Gibson var þá einnig keyptur frá Manchester United. Belginn hávaxni Marouane Fellaini byrjar leiktíðina vel, hefur þegar skorað tvö mörk, og verður eflaust í lykilhlutverki líkt og bakvörðurinn Leighton Baines sem lengi vel var talið að færi til United í sumar. Vinstri fótur Baines er Everton dýrmætur í föstum leikatriðum. Everton er annars með öfluga landsliðsmenn í flestum stöðum.

Everton  vann tvo fyrstu leikina á tímabilinu, lagði Manchester United 1:0 á heimavelli og Aston Villa 3:1 á útivelli, en tapaði síðan 0:2 fyrir WBA á útivelli í þriðju umferð.

Þessir eru komnir:
Matthew Kennedy frá Kilmarnock
Ben McLaughlin frá Dundalk
Kevin Mirallas frá Olympiacos
Steven Naismith frá Rangers
Bryan Oviedo frá FC Köbenhavn
Steven Pienaar frá Tottenham

Þessir eru farnir:
Jack Bidwell til Brentford (lán)
Tim Cahill í New York Red Bulls
Adam Forshaw til Brentford
Marcus Hahnemann, óvíst
James McFadden, óvíst
Connor Roberts til Cheltenham
Jack Rodwell til Manchester City
Denis Stracqualursi til Tigre (úr láni)
James Wallace til Tranmere
Joseph Yobo til Fenerbache

Leikmenn Everton 2012-2013.

Marouane Fellaini hefur skorað tvö mörk fyrir Everton það sem af er leiktíð og þeir Steven Pienaar og Nikica Jelavic eitt mark hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert