Ensku liðin kynnt - Chelsea

Þó að Chelsea hafi endað í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, sem er versti árangur liðsins í tíu ár, varð tímabilið á endanum eitt það besta í sögu félagsins þar sem liðið vann Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn sem og enska bikarinn.

Chelsea var í Meistaradeildarsæti lengi framan af keppni í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en missti svo Arsenal og Newcastle upp fyrir sig. Portúgalski knattspyrnustjórinn André Villas-Boas var látinn fara í byrjun mars og Roberto Di Matteo tókst ekki að rétta við gengið í deildinni þrátt fyrir að hafa náð í tvo fyrrnefnda titla.

Eiður Smári Guðjohnsen er eini Íslendingurinn sem leikið hefur með Chelsea en hann átti afar farsælan feril hjá liðinu á árunum 2000-2006, varð tvívegis enskur meistari og myndaði banvænt sóknarpar með Hollendingnum Jimmy Floyd Hasselbaink. Eiður er nú án félags en hefur verið til reynslu hjá Seattle Sounders í Bandaríkjunum.

Eftir að Villas-Boas var rekinn var Ítalinn Di Matteo ráðinn til bráðabirgða út tímabilið en hann hafði verið aðstoðarmaður Portúgalans. Di Matteo skrifaði svo undir samning til tveggja ára í sumar. Hann hefur áður stýrt MK Dons og WBA sem Ítalinn kom upp í úrvalsdeild 2010 en var svo rekinn frá níu mánuðum síðar. Di Matteo, sem er 42 ára gamall, hefur sterkar taugar til Chelsea eftir að hafa verið leikmaður liðsins árin 1996-2002.

Það er enginn skortur á fjármagni hjá Chelsea en félagið er í eigu rússneska auðkýfingsins Romans Abramovich sem keypti félagið sumarið 2003 og hóf strax að eyða gríðarháum fjárhæðum í leikmenn á borð við Claude Makélélé, Hernán Crespo, Damien Duff og Juan Sebastián Verón. Eftir fyrsta tímabilið réð hann svo Portúgalann José Mourinho sem átti heldur betur eftir að borga sig. Abramovich, sem byggir auðæfi sín á olíuviðskiptum, er nú í 68. sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims.

Abramovich opnaði sannarlega veskið í sumar og nældi í afar öfluga leikmenn. Belginn eftirsótti Eden Hazard, kant- og miðjumaður, kom frá Lille og hefur þegar sýnt að hann er frábær leikmaður. Brasilíski miðjumaðurinn Oscar kom frá Internacional og snemma sumars fékk Chelsea Þjóðverjann Marko Marin sem verið hefur meiddur í byrjun tímabils. Þar með er orðið lítið pláss fyrir Florent Malouda sem virðist á förum.

Victor Moses kom einnig nokkuð óvænt frá Wigan en þörf var á sóknarmanni eftir að Didier Drogba hélt til Kína þó að hans skarð verði sennilega aldrei fyllt. Þá var framherjinn Romelu Lukaku lánaður til WBA. José Bosingwa og Salomon Kalou var einnig leyft að fara og portúgalski miðjumaðurinn Raul Meireles seldur til Tyrklands, auk þess sem Michael Essien var lánaður til Real Madrid.

Frank Lampard átti að fá minna hlutverk hjá Chelsea undir stjórn Villas-Boas en hann verður líkast til lykilhlekkur í liðinu í vetur líkt og John Terry en saman eru þeir hjarta og sál Chelsea. Fernando Torres þarf að taka á sig enn meiri ábyrgð sem algjör aðalframherji liðsins  eftir að Drogba fór og ætti að hafa sjálfstraust til þess sem tvöfaldur Evrópumeistari frá því í sumar. Spænski kant- og miðjumaðurinn Juan Mata sló í gegn á síðustu leiktíð og brasilíski miðjumaðurinn Ramires sýndi einnig hvers hann er megnugur. Petr Cech er svo einn albesti markvörður deildarinnar.

Chelsea hefur burði til að berjast um Englandsmeistaratitilinn á þessari leiktíð og hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa. Ekki yrði viðunandi að enda aftur fyrir neðan Meistaradeildarsætin fjögur. Byrjunin er allavega góð, þrír sigrar í þremur leikjum, 2:0 gegn Wigan á útivelli og 4:2 gegn Reading og 2:0 gegn Newcastle á heimavelli.

Þessir eru komnir:
César Azpilicueta frá Marseille
Eden Hazard frá Lille
Thorgan Hazard frá Lens (lánaður til Zulte-Waregem)
Marko Marin frá Werder Bremen
Victor Moses frá Wigan
Oscar frá Internacional

Þessir eru farnir:
Yossi  Benayoun til West Ham (lán)
José Bosingwa til QPR
Nathaniel Chalobah til Watford (lán)
Conor Clifford til Portsmouth (lán)
Thibaut Courtois til Atlético Madrid (lán)
Ulises Davila til Sabadell (lán)
Kevin de Bruyne til Werder Bremen (lán)
Matej Delac til Guimaraes (lán)
Didier Drogba til Shanghai Shenhua
Michael Essien til Real Madrid (lán)
Ben Gordon til Birmingham (lán)
Sam Hutchinson til Nottingham Forest (lán)
Rohan Ince til Yeovil (lán)
Gael Kakuta til Vitesse (lán)
Tomás Kalas til Vitesse (lán)
Salomon Kalou til Lille
Milan Lakovic til Guimaraes (lán)
Romelu Lukaku til WBA (lán)
Josh McEachran til Middlesbrough (lán)
Raul Meireles til Fenerbache
Jacob Mellis til Barnsley
Archange Nkumu til Yeovil (lán)
Sam Walker til Bristol Rovers (lán)
Patrick van Aanholt til Vitesse (lán)

Leikmenn Chelsea 2012-2013.

Frank Lampard, Fernando Torres og Branislav Ivanovic hafa skorað tvö mörk á leiktíðinni til þessa og þeir Gary Cahill og Eden Hazard sitt markið hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert