Ensku liðin kynnt - Manchester United

Manchester United háði hnífjafna baráttu við granna sína úr Manchester City um Englandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en endaði í 2. sæti. United virtist ætla að tryggja sér titilinn í 20. sinn en tap gegn Wigan og jafntefli við Everton undir lok leiktíðar hleypti City aftur inn í baráttuna og United varð að lokum að horfa á eftir titlinum vegna slakari markatölu.

Þetta var sjöunda leiktíðin í röð þar sem United endar í 1. eða 2. sæti. Liðið hefur raunar ekki endað neðar en í 3. sæti frá stofnun úrvalsdeildarinnar 1992, og unnið hana langoftast allra liða eða tólf sinnum.

Enginn Íslendingur hefur leikið með Manchester United en þess má geta að Eiður Smári Guðjohnsen var á sínum tíma sterklega orðaður við félagið og Gylfi Þór Sigurðsson var sagður hafa vakið áhuga þess með frammistöðu sinni hjá Swansea á síðustu leiktíð.

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri United hefur verið hjá félaginu frá árinu 1986 og er því með umtalsvert meiri starfsaldur hjá félagi sínu en allir aðrir stjórar í úrvalsdeildinni. Skotinn varð sjötugur í desember á síðasta ári en virðist enn hafa sama sigurhungrið og áður og það hefur skilað United ótrúlegu magni verðlaunagripa. Undir hans stjórn hefur United unnið 12 Englandsmeistaratitla, 5 bikarmeistaratitla og tvo Evrópumeistaratitla auk fjölda annarra titla. Það skyldi því engan undra að norðurhluti stúkunnar á Old Trafford skyldi nefndur í höfuðið á Ferguson á síðustu leiktíð, eftir 25 ára stjórnartíð hans.

Manchester United er nú í eigu bandarísku Glazer-fjölskyldunnar og hefur verið það síðan árið 2005. Fjölskyldan hefur verið gagnrýnd af stuðningsmönnum United fyrir meðal annars það að láta félagið taka yfir stóran hluta af skuldum sínum, og hækka duglega miðaverð á Old Trafford. Ferguson hefur hins vegar mært samstarfið við eigendurna. Fjölskyldufaðirinn Malcolm Glazer á einnig ruðningsliðið Tampa Bay Buccaneers sem leikur í bandarísku NFL-deildinni.

Stærstu félagaskipti sumarsins eru sennilega kaup United á Hollendingnum Robin van Persie sem var markahæsti og besti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, og hefur byrjað frábærlega fyrir United. Félagið festi einnig kaup á Japananum Shinji Kagawa sem leikur fremst á miðjunni og virðist smella vel inn í liðið. Þá mun Patrice Evra fá auka samkeppni um stöðu vinstri bakvarðar eftir að hinn 23 ára gamli Hollendingur Alexander Büttner kom.

United losaði sig við framherjana Dimitar Berbatov og Michael Owen enda orðið lítið pláss fyrir þá í leikmannahópnum. Þá fór Suður-Kóreumaðurinn Park Ji-Sung, sem Ferguson nýtti nánast undantekningalaust í stærstu leiki liðsins, til QPR líkt og tvíburabróðirinn Fabio Da Silva sem var lánaður.

Van Persie verður vafalaust í lykilhlutverki hjá United líkt og hann var hjá Arsenal á síðustu leiktíð. Serbinn Nemanja Vidic hefur verið einn allra besti miðvörður heims og er orðinn heill heilsu eftir að hafa misst af mestallri síðustu leiktíð. Antonio Valencia átti frábæra leiktíð síðasta vetur og þessi skilvirki kantmaður mun eflaust gera bakvörðum deildarinnar erfitt fyrir í vetur einnig.

Wayne Rooney á við meiðsli að stríða og einhverjir efast um að pláss sé í byrjunarliðinu fyrir hann með komu Van Persie, en Rooney hefur verið algjör lykilmaður síðustu ár og mun sjálfsagt láta mikið að sér kveða. Michael Carrick var einnig gríðarlega mikilvægur hlekkur á miðjunni hjá United á síðustu leiktíð þó það hafi ekki skilað honum sæti í enska landsliðshópnum fyrir EM.

Manchester United stefnir á Englandsmeistaratitilinn eins og fjölmörg undanfarin ár og engan ætti að undra þótt sá tuttugasti kæmi í hús í vor.

Þessir eru komnir:
Alexander Büttner frá Vitesse
Ángelo Henríquez frá Universidad de Chile
Shinji Kagawa frá Borussia Dortmund
Robin van Persie frá Arsenal
Nick Powell frá Crewe

Þessir eru farnir:
Ben Amos til Hull (lán)
Dimitar Berbatov til Fulham
Reece Brown til Coventry (lán)
John Cofie til Sheffield United (lán)
Fabio Da Silva  til QPR (lán)
Ritchke De Laet til Leicester
Matthew James til Leicester
Park Ji-Sung til QPR
Tomasz Kuszczak til Brighton
Oliver Norwood til Huddersfield
Michael Owen til Stoke
Paul Pogba til Juventus

Leikmenn Manchester United 2012-2013.

Robin van Persie hefur skorað fjögur marka United á tímabilinu og þeir Rafael og Shinji Kagawa eitt mark hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert