Kveðjum Ólaf sextánda júní

Ólafur Stefánsson í leik með landsliðinu gegn Svíum á Ólympíuleikunum …
Ólafur Stefánsson í leik með landsliðinu gegn Svíum á Ólympíuleikunum í London í fyrra. mbl.is/Golli

Sextándi júní í Laugardalshöll. Ísland er þegar komið í úrslitakeppni EM. Einn fremsti handboltamaður heims og sá besti í Íslandssögunni er að kveðja endanlega sem leikmaður. Þarf nokkuð að fjölyrða um þetta? Leikur Íslands og Rúmeníu í lokaumferð undankeppni Evrópumótsins hlýtur að verða formlegur kveðjuleikur Ólafs Stefánssonar.

Að sjálfsögðu fer Aron Kristjánsson með sína menn í lokaumferðir riðilsins í júní af fullum krafti. Það væri ekki heiðarlegt gagnvart Slóvenum að fara með hálfgert B-lið til Hvíta-Rússlands 12. júní.

Þegar stigalausir Rúmenar koma hingað fjórum dögum síðar verður staðan allt önnur. Þá á Aron að geta með góðri samvisku gefið þeim frí sem á þurfa að halda, gefið yngri mönnum tækifæri til að spila – og gefið þjóðinni tækifæri til að hylla og kveðja sinn mesta afreksmann í íþróttinni.

Er þetta nokkur spurning? Ólafur tekur þátt í leiknum, og að honum loknum verður treyja nr. 11 dregin upp í rjáfur Laugardalshallar og aldrei notuð framar í landsleik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert