„Ég veit ekki hvað maður á að segja um þetta. Þetta er til skammar. Hann er að gera sér mjög erfitt fyrir vilji hann vera áfram hjá Liverpool,“ sagði Graeme Souness, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, um athæfi Luis Suárez þegar hann beit Branislav Ivanovic í leiknum gegn Chelsea í dag.
Suárez beit Ivanovic í handlegginn en dómarar sáu ekki atvikið.
„Það er mikilvægast að halda uppi heiðri félagsins. Liverpool er þekkt úti um allan heim. Fólk mun ræða þetta í langan tíma og þetta varpar skugga á Liverpool. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann bítur andstæðing. Hann er að stefna í voða öllu því sem þetta frábæra félag stendur fyrir,“ sagði Souness.
„Ég hef aldrei séð svona nokkuð í fótboltaleik. Það eru ákveðnar reglur sem menn verða að virða, en hann gerði það ekki í dag. Myndir af þessu munu birtast um allan heim. Það verður hrikalega erfitt fyrir Rodgers að verja hann. Stjórnmálamenn munu meira að segja tjá sig um þetta,“ bætti Souness við.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, sagðist eftir leik ekki geta tjáð sig um atvikið strax. Hann hefði ekki séð það heldur aðeins heyrt af því.