„Ég sé afskaplega mikið eftir óafsakanlegri hegðun minni fyrr í dag í leiknum okkar gegn Chelsea,“ sagði Luis Suárez í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Liverpool en Suárez gerðist sekur um að bíta í handlegg Branislavs Ivanovic, leikmanns Chelsea, þegar liðin mættust í dag.
„Ég hef beðist afsökunar og reynt að hafa samband við Branislav Ivanovic til að ræða við hann. Ég vil líka biðja stjórann minn afsökunar, liðsfélaga og alla hjá Liverpool vegna þess að ég hef brugðist þeim,“ bætti Suárez við.
Enska knattspyrnusambandið ætlar að taka atvikið fyrir og skoða sjónvarpsupptökur, og gæti Suárez átt yfir höfði sér langt bann fyrir athæfið.
„Hegðun Luis hæfir ekki neinum sem klæðist treyju Liverpool, og hann veit að hann hefur brugðist sjálfum sér sem og öllum þeim sem tengjast félaginu. Við munum taka á þessu máli innan félagsins og bíða ákvörðunar knattspyrnusambandsins,“ sagði Ian Ayre, framkvæmdastjóri Liverpool.