Luis Suárez beit í dag andstæðing sinn í annað skiptið á ferlinum eins og frægt er orðið, í leik Liverpool og Chelsea. Fórnarlambið að þessu sinni var Branislav Ivanovic og hefur Suárez verið harðlega gagnrýndur fyrir athæfið.
Suárez hefur sjálfur beðist auðmjúklega afsökunar á bitinu, og viðurkennt að hafa orðið sjálfum sér og Liverpool til skammar.
Eini íþróttamaðurinn sem talist getur þekktari fyrir að bíta andstæðing sinn er hnefaleikakappinn Mike Tyson, sem beit eyrað af Evander Holyfield í frægum bardaga árið 1997.
Það er því ansi skondið frá því að segja að eftir að Suárez beit Ivanovic í dag, þá byrjaði Tyson að „fylgjast með“ (e. follow) Suárez á samskiptavefnum Twitter. Sækjast sér um líkir, segir jú einhvers staðar.