Luis Suárez, framherji Liverpool, ætlar ekki að áfrýja tíu leikja banninu sem hann var dæmdur í af enska knattspyrnusambandinu fyrir að bíta Branislav Ivanovic í leik Liverpool og Chelsea síðastliðinn sunnudag.
Þetta kemur fram á heimasíðu FA en Suárez fékk frest til dagsins í dag til að áfrýja. Úrúgvæinn og Liverpool voru mjög ósátt við lengd leikbannsins en hafa ákveðið að áfrýja ekki.
Suárez hefur afplánun leikbannsins strax í dag og verður því ekki með Liverpool í fjórum síðustu leikjum yfirstandandi leiktíðar og ekki heldur í sex fyrstu leikjum næsta tímabils.