Fyrsta kæran til aga-og úrskurðarnefndar KKÍ

Ragna Margrét Brynjarsdóttir, leikmaður Vals.
Ragna Margrét Brynjarsdóttir, leikmaður Vals. mbl.is/Árni Sæberg

Dómaranefnd KKÍ hefur ákveðið að kæra Rögnu Margréti Brynjarsdóttur, leikmanns Vals í körfuknattleik, til aga-og úrskurðarnefndar KKÍ. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi réttur er nýttur en hann var tekinn upp á ársþingi KKÍ í vor.

Ragna fékk óíþróttamannslega villu í viðureign Vals og Snæfells í gær þegar hún gaf Helgu Hjördísi Björgvinsdóttur olnbogaskot. Dómaranefndin staðfesti í samtali við karfan.is í dag að málið verði tekið lengra.

„Dómaranefnd hefur nú þegar kært atvikið til aga og úrskurðarnefndar. Eins og þú segir þá er það nýtilkomið að dómaranefnd hafi heimild til að kæra, var sett í reglugerð á þingi KKÍ í vor. Það voru því engin fordæmi og nefndin ákvað að sofa á málinu í nótt eftir að hafa séð atvikið í gær. Nú í morgun var svo send inn kæra sem aga- og úrskurðarnefnd mun svo taka fyrir,“ sagði Rúnar Birgir Gíslason, formaður dómaranefndar KKÍ, við karfan.is.

Málið sem um ræðir má sjá hér og byrjar eftir 9 mínútur og 45 sekúndur. Það er nú komið inn á borð aga- og úrskurðarnefndar KKÍ sem tekur það fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert