Ryan Giggs mun stýra liði Manchester United í leikjunum fjórum sem það á eftir nú þegar David Moyes er horfinn á braut. Enskir fjölmiðlar greina frá þessu en félagið hefur ekki greint frá því opinberlega hver tekur við liðinu tímabundið.
Steve Round, sem var aðstoðarstjóri hjá David Moyes, og Jimmy Lumsden, sem var þjálfari aðalliðsins, eru báðir hættir hjá félaginu í kjölfarið á brottrekstri knattspyrnustjórans.
Giggs hefur verið í þjálfarateymi félagsins á tímabilinu auk þess að vera í leikmannahópnum. Giggs er goðsögn í herbúðum United en þessi fertugi Walesverji hefur allan sinn feril spilað með Manchester United. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 1991 og á feri sínum með félaginu hefur hann meðal annars orðið Englandsmeistarari 13 sinnum, hefur unnið enska bikarinn fjórum sinnum og hefur tvívegis orðið Evrópumeistari.
Fyrsti leikur United undir stjórn Giggs verður á móti Norwich á Old Trafford næsta laugardag en síðustu þrír leikir Manchester United eru á móti Sunderland, Hull og Southampton.
Frétt mbl.is: David Moyes rekinn