Velski knattspyrnumaðurinn Ryan Giggs er ekki á óskalista forráðamanna Manchester United um að stýra liðinu á næstu leiktíð, þó hann verði við stjórnvölinn út yfirstandandi leiktíð. Þetta er skoðun sérfræðinga breska ríkisútvarpsins BBC.
Forráðamenn United telja að félagið þurfi reynslumikinn knattspyrnustjóra til að rétta skútuna af á ný hjá félaginu og kom liðinu aftur í röð þeirra bestu.
Meðal þeirra sem hafa tjáð sig á vef BBC um stjóramál United eru Gary Lineker og Robbie Savage.
„Ryan gæti orðið frábær knattspyrnustjóri í framtíðinni. En til að United rétti úr kútnum á ný þarf knattspyrnustjóra sem er refur og getur lokkað til sín sterka leikmenn í sumar. Það yrði hins vegar sterkur leikur að gera Ryan að aðstoðarmanni nýs knattspyrnustjóra í sumar. Hann er með rautt Manchester United blóð í æðum og því sterkt að halda honum innan félagsins með einhverjum hætti,“ segir Robbie Savage meðal annars.