Manchester United hóf í gær leit að nýjum knattspyrnustjóra í annað sinn á tíu mánuðum. David Moyes, sem var ráðinn síðasta sumar til að taka við af Alex Ferguson, var sagt upp störfum en félagið tilkynnti það snemma í gærmorgun. Á öðrum degi páska höfðu lekið út fregnir af því að tíðinda væri að vænta úr herbúðum United og þær fengu byr undir báða vængi þegar forráðamenn United báru þær ekki til baka.
Ósigurinn gegn Everton, hans gamla félagi, á páskadag var því kveðjuleikur Skotans við stjórnvölinn hjá félaginu. Með þeim ósigri varð endanlega ljóst að í fyrsta skipti í nítján ár yrði Manchester United ekki einn af fulltrúum Englands í Meistaradeild Evrópu.
En hver tekur við liðinu? Ryan Giggs stjórnar því í síðustu fjórum leikjunum í úrvalsdeildinni, þar sem liðið hefur að litlu að keppa, nema mögulega því að vinna sér þátttökurétt í Evrópudeild UEFA.
Hlutabréf í United tóku talsverðan kipp við þessi tíðindi og við lok markaðarins í New York í gær höfðu þau hækkað um 6,5 prósent.
Ólíklegt þykir að Giggs verði ráðinn knattspyrnustjóri liðsins vegna reynsluleysis síns á þeim vettvangi. Þeir Jürgen Klopp hjá Dortmund, Diego Simeone hjá Atlético Madríd og Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands, voru strax nefndir til sögunnar. Klopp sagði strax í viðtali við The Guardian að hann myndi ekki yfirgefa Dortmund.
Ljóst er að Moyes fer ekki tómhentur frá Old Trafford en hann skrifaði undir sex ára samning við Manchester United síðasta sumar. vs@mbl.is