Vincent Tan, hinn skrautlegi eigandi Cardiff City sem Aron Einar Gunnarsson leikur með, kom eins og stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina í vetur. Hann hefur verið áberandi fyrir umdeildar ákvarðanir sínar og breytti meðal annars upp á sitt eindæmi um lit á búningum liðsins.
Cardiff, sem er fallið úr ensku úrvalsdeildinni fyrir lokaumferðina í dag, spilaði áður í bláum búningum en hefur skartað rauðum á tímabilinu. Tan hefur nú stigið fram og sagst vera tilbúinn að endurskoða þá ákvörðun; en einungis ef liðið endurheimtir sæti sitt á meðal þeirra bestu. Hann hefur jafnframt gefið það út að hann muni ekki selja liðið þrátt fyrir fallið.
„Ég vil einbeita mér að því að koma liðinu aftur upp í úrvalsdeildina og þegar það er í höfn mun ég skoða hlutina, meðal annars hvað búningana varðar,“ sagði Tan, en litabreyting hans olli nokkru fjaðrafoki.
Tan hefur vakið athygli í vetur fyrir framkomu sína og ákvarðanir sem hafa fallið í grýttan jarðveg stuðningsmanna. Á dögunum var honum líkt við óþokka úr James Bond-myndunum og spurður út í þá líkingu sagðist Tan hins vegar líta miklu frekar á sig sem sjálfan Bond en einhvern bölvaðan óþokka.