Spænska dagblaðið Sport heldur því fram í kvöld að úrúgvæski framherjinn Luis Suárez, leikmaður Liverpool, sé búinn að samþykkja samningstilboð frá spænska stórveldinu Barcelona upp á 160 þúsund pund í vikulaun og Liverpool og Barcelona séu núna að semja um endanlegt kaupverð á kappanum.
Spænska dagblaðið heldur því jafnframt fram að Sílebúinn Alexis Sánchez muni ganga upp í kaupverðið og er talið að Liverpool reyni að fá Svisslendinginn Xherdan Shaqiri til liðs við sig til að fylla skarð Suárez ef frétt Sport á Spáni reynist rétt.
Luis Suárez endaði sem markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur með 31 mark, þrátt fyrir að missa af fyrstu leikjum tímabilsins vegna leikbanns sem hann fékk fyrir að bíta Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea, í leik Liverpool og Chelsea árið 2013. Suárez byrjar einnig næstu leiktíð í banni, sama hvar hann spilar. Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, dæmdi hann í fjögurra mánaða bann frá öllum fótbolta fyrir að bíta ítalska varnarmanninn Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í Brasilíu.