Barcelona færist nær því að ganga frá kaupunum á Luis Suárez frá Liverpool, en liðið er sagt hafa samþykkt það að virkja klásúlu í samningi Úrúgvæans sem segir að hann megi fara fyrir 75 milljónir punda, rúma 14 milljarða króna.
Viðræður hafa verið í gangi á milli liðanna og Liverpool gaf það út að liðið mundi ekki selja Suárez fyrir minna en það sem segir í samningi hans, nema Alexis Sanchez fylgi með í kaupunum. BBC segir að Barcelona hafi nú samþykkt að borga uppsett verð fyrir leikmanninn, en enn er óvíst hvort Sílebúinn Alexis Sanchez verði hluti af kaupverðinu.
„Viðræðurnar eru á góðu stigi og það er vonast til þess að endar nái saman. Við munum halda áfram samningaviðræðum en það er ekkert í höfn ennþá,“ segir heimildarmaður innan herbúða Liverpool.