Enska knattspyrnufélagið Liverpool staðfesti rétt í þessu að samkomulag hefði tekist við Barcelona um sölu á úrúgvæska framherjanum Luis Suárez til Katalóníufélagsins.
Þetta hefur legið í loftinu síðustu vikurnar og fór á fulla ferð skömmu eftir að Suárez varð uppvís að því að bíta leikmann Ítalíu í leik þjóðanna á HM í Brasilíu í síðasta mánuði.
Suárez mun skrifa undir fimm ára samning við Barcelona en hann getur byrjað að æfa og spila með liðinu í lok október þegar fjögurra mánaða keppnisbann hans hjá FIFA rennur út.
Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool sagði í yfirlýsingu sem birtist á vef Liverpool rétt í þessu að félagið hefði gert allt sem í valdi þess hefði staðið til að halda Suárez hjá félaginu. Það sé með miklum trega sem félagið hafi að lokum samþykkt að verða að vilja hans um að fara til Spánar til að takast á við nýja reynslu og áskorun.