Markalaust á White Hart Lane

Robin van Persie lætur Hugo Lloris markvörð Tottenham verja frá …
Robin van Persie lætur Hugo Lloris markvörð Tottenham verja frá sér úr dauðafæri í fyrri hálfleik. AFP

Fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni lauk með markalausu jafnefli á White Hart Lane í Lundúnum þar sem Tottenham tók á móti Manchester United.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með þar sem bæði lið fengu færi en þegar líða tók á leikinn tóku gestirnir frá Manchester öll völd á vellinum. Tottenham gat einungis þakkað markverði sínum Hugo Lloris fyrir að staðan væri 0:0 í hálfleik en hann varði oft og tíðum frábærlega.

Leikmenn Tottenham komu aðeins sterkari út í síðari hálfleikinn og leikurinn var áfram jafn og spennandi þar sem bæði lið fengu fjöldamörgfæri til þess að skora. Gestirnir frá United voru þó heilt yfir sterkari en náðu ekki að nýta þau færi sem þeir fengu.

Það voru þó heimamenn í Tottenham sem pressuðu stíft á United á lokamínútunum en hvorugt liðið náði að brjóta ísinn, lokatölur 0:0.

United er áfram í 3. sæti og hefur 36 stig en Tottenham er í 6. sætinu með 31 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert