Hinn þrautreyndi ástralski markvörður Mark Schwarzer er genginn til liðs við Leicester, neðsta liðið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, eftir að hafa verið varamarkvörður Chelsea í hálft annað ár.
Schwarzer er 42 ára gamall og hefur spilað ríflega 550 deildaleiki á Englandi með Chelsea, Fulham, Middlesbrough og Bradford City, ásamt því að leika 109 landsleiki fyrir Ástralíu. Hann er áttundi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Leicester er í vandræðum vegna meiðsla hjá Kasper Schmeichel markverði og Schwarzer gæti farið beint í markið í næsta deildaleik sem er gegn Aston Vila á heimavelli næsta laugardag.