Brasilíski knattspyrnumaðurinn Anderson sem hefur leikið með Manchester United undanfarin ár hefur fengið sig lausan frá félaginu og er búinn að semja við Internacional í heimalandi sínu.
Anderson er 26 ára gamall og kom til Manchester United frá Porto árið 2007 en hann hafði þá leikið eitt tímabil með portúgalska liðinu. Hann lék 105 leiki með United í úrvalsdeildinni og skoraði 5 mörk en hefur verið í miklu basli síðustu árin. Anderson hefur aðeins komið við sögu í einum leik í úrvalsdeildinni og einum í deildabikarnum á þessu tímabili og í fyrra lék hann fjóra leiki í deildinni og átta mótsleiki alls.
Anderson lék átta landsleiki fyrir Brasilíu á árunum 2007 og 2008 en hefur ekki komið við sögu með landsliði þjóðar sinnar síðan.