Tottenham Hotspur sigraði Sunderland 1:0 á Leikvangi ljóssins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en gestirnir skoruðu sigurmarkið undir lok leiksins.
Bæði lið voru án sigurs fyrir þennan leik en Tottenham var búið að ná í þrjú jafntefli og tapa einum á meðan Sunderland var búið að ná í tvö jafntefli og tapa tveimur.
Kyle Walker, varnarmaður Tottenham, vildi fá vítaspyrnu snemma leiks er Patrick van Aanholt virtist brjóta á honum innan teigs, en dómari leiksins dæmdi ekkert.
Jermain Defoe fékk hættulegasta færi fyrri hálfleiks er hann komst einn inn fyrir, en skot hans fór í stöng.
Leikurinn lifnaði töluvert við í síðari hálfleik en Harry Kane fékk dauðafæri en brást bogalistin eins og svo oft áður á þessari leiktíð. Lítið er að ganga upp hjá framherjanum öfluga sem átti magnað tímabil í fyrra.
Ryan Mason skoraði sigurmarkið í dag eftir laglegt samspil við Erik Lamela, en hann meiddist í skotinu og var eitthvað minna í því að fagna markinu. Jack Rodwell var nálægt því að jafna metin stuttu síðar en skot hans fór í þverslá.
Lokatölur 1:0 Tottenham í vil. Liðið er því komið í 12. sæti með 6 stig á meðan Sunderland er í botnsætinu með 2 stig.