Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, slapp ómeiddur eftir að einkaflugvél sem Belginn var farþegi í rann út af flugbraut sinni á alþjóðaflugvellinum í Norwich í gær.
Belgíski landsliðsmaðurinn var fjarri góðu gamni vegna meiðsla á kálfa í 3:0 sigri Manchester City gegn Norwich í enska bikarnum í gær.
Kompany var meðal áhorfenda á leiknum og átti að fljúga heim í einkaþotu eftir leikinn. Þegar flugvélin reyndi að taka á loft rann hún út af flugbrautinni og stöðvaði á grasi við hliðina á flugbrautinni. Engin meiðsli urðu á fólki í óhappinu.