Enski landsliðsmarkvörðurinn, Joe Hart, er genginn til liðs við ítalska liðið Torino frá Manchester City. Um lánssamning er að ræða en Hart mun leika á Ítalíu á yfirstandandi keppnistímabili.
Hart missti sæti sitt sem aðalmarkvörður Manchester City með tilkomu spænska knattspyrnustjórans Pep Guardiola.
„Skyndilega urðu breytingar á ferlinum og vistaskiptin til Torino komu upp á réttum tíma,“ sagði Hart eftir að hann skrifaði undir samninginn í morgun.
„Ítalskir markmenn eru þekktir um allan heim og ég er fullviss um að ég get lært margt hér í Torino.“
Hart, sem er 29 ára gamall, samdi við Manchester City árið 2006 en lék síðan sem lánsmaður með Tranmere, Blackpool og Birmingham áður en hann tók við stöðu aðalmarkvarðar hjá City sem hann hefur gegnt undanfarin ár.
Hart hefur verið aðalmarkvörður enska landsliðsins síðustu ár og hefur leikið 53 landsleiki.