Axel byrjaði vel með Bath City

Axel Óskar Andrésson í búningi Reading.
Axel Óskar Andrésson í búningi Reading. Ljósmynd/@ReadingFC

Axel Óskar Andrésson, unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, fór vel af stað í fyrsta leik sínum með enska liðinu Bath City í dag en félagið fékk hann lánaðan í einn mánuð frá B-deildarfélaginu Reading.

Bath City vann Basingstoke, 2:0, í bikarleik. Axel kom beint inn í vörn liðsins, lék allan leikinn og var valinn maður leiksins að honum loknum.

Axel er 18 ára gamall varnarmaður og hefur verið í röðum Reading í tvö ár en hann kom þangað frá Aftureldingu. Hann hefur í vetur spilað með U23 ára liði Reading en ákveðið var að lána hann til Bath til að gefa honum meiri tækifæri á að spila í meistaraflokki. Bath leikur í sjöttu efstu deild.

Hann hefur spilað 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands og lék átta leiki með Aftureldingu í 2. deildinni, sextán ára gamall, áður en hann fór til Reading sumarið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert