Mikilvægustu menn enska boltans

Manchester United hefur gengið mun betur að safna stigum þegar …
Manchester United hefur gengið mun betur að safna stigum þegar Michael Carrick er í liðinu. AFP

Leikmaður Manchester City getur státað sig af því að hafa að meðaltali tekið þátt í meiri stigasöfnun en nokkur annar leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð. Hjá Manchester United, Liverpool og Arsenal má finna menn sem hafa ekki tapað leik í vetur.

Sky Sports hefur tekið saman yfirlit sem sýnir hvaða leikmenn virðast hafa best áhrif á sitt lið. Horft var til leikmanna sem spilað höfðu að lágmark sjö deildarleiki í vetur, og kom City-maðurinn Bacary Sagna best út. Með Sagna í liðinu hefur City að meðaltali fengið 2,7 stig í leik út úr leikjunum 10 sem hann hefur spilað. Án hans hefur City aðeins fengið 1,5 stig að meðaltali úr hverjum leik.

Chelsea-mennirnir Marcos Alonso og Victor Moses hafa sannað mikilvægi sitt í vængbakvarðastöðunum hjá toppliðinu. Með þá báða inni á vellinum hefur Chelsea fengið 2,79 stig að meðaltali úr leikjum sínum, en 2,6 stig úr leikjum Alonso og 2,58 stig úr leikjum Moses. Án þeirra beggja hefur Chelsea fengið 1,67 stig að meðaltali.

Matip, Mustafi og Carrick

Joel Matip hjá Liverpool, Shkodran Mustafi hjá Arsenal og Michael Carrick hjá Manchester United hafa allir sloppið við það að þola tap á leiktíðinni. Með Carrick í liðinu hefur United fengið 2,56 stig að meðaltali í leik, unnið sjö af níu leikjum, en 1,45 stig án hans.

Joel Matip í baráttu við Michail Antonio hjá West Ham.
Joel Matip í baráttu við Michail Antonio hjá West Ham. AFP

Matip, sem kom til Englands frá Schalke í sumar, hefur leikið 12 leiki og hefur Liverpool unnið átta þeirra en gert fjögur jafntefli. Mustafi hefur tekið þátt í níu sigrum og fjórum jafnteflum á sinni fyrstu leiktíð með Arsenal.

Þá má geta þess að Federico Fernández, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar, er með besta árangurinn í þessum málum hjá Swansea. Fernández hefur aðeins tekið þátt í tveimur töpum en leikið þrjá sigurleiki og fjóra jafnteflisleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert