Barton er hættur í fótbolta

Joey Barton, til vinstri, mun ekki snúa aftur á völlinn.
Joey Barton, til vinstri, mun ekki snúa aftur á völlinn. AFP

Joey Barton, sem í dag var úrskurðaður í 18 mánaða bann frá öllum afskiptum af knattspyrnu vegna veðmála, mun ekki snúa aftur á völlinn eftir að banninu lýkur.

Barton birtir langan pistil á heimasíðu sinni þar sem hann gagnrýnir lengd dómsins, sem hann hefur þegar áfrýjað. Hann segist aldrei hafa veðjað á leiki sem hann spilaði sjálfur, en viðurkennir að hafa veðjað á að hans eigið lið tapaði. Þá hafi hann hins vegar ekki spilað sjálfur. Hann áréttar að aldrei hafi hann haft áhrif á leik með veðmál sín í huga.

„Sem knattspyrnumaður áttu mikinn frítíma og ég horfi mikið á íþróttir í sjónvarpinu. Mér finnst gaman að giska á úrslit og eins mikið og ég elska að vinna, þá hata ég enn meira að tapa. Þess vegna veðjaði ég aldrei háum fjárhæðum, því ég var ekki í þessu fyrir peningana,“ skrifar Barton.

„Ég hef gert mörg mistök á ferlinum en hef alltaf viðurkennt þau. Ég viðurkenni að þetta er staða sem ég kom mér sjálfur í og hefur opnað augu mín fyrir því að ég þarf að leita mér aðstoðar. Ég mun gera það,“ skrifar Barton, en pistilinn í heild má lesa HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert